Raymond Johansen, formaður borgarráðs Óslóar, sem frá áramótum er á góðri leið með að verða umdeildasti stjórnmálamaður höfuðstaðarins, hélt langþráðan blaðamannafund klukkan 16 í dag að norskum tíma þar sem hann kynnti fimm þrepa enduropnunaráætlun borgarinnar sem hefur að miklu leyti verið lokuð í hálft ár.
Frá 9. nóvember, þegar áfengisveitingar voru bannaðar og líkamsræktarstöðvar, kvikmynda-, leikhús, bókasöfn og margt fleira lokaði dyrunum á kórónuveiruna, hefur æ fleiri lokum verið skotið fyrir, verslunarmiðstöðvar og verslanir, aðrar en matvöru og lyfja, lokuðu 25. janúar eftir að breska afbrigðið stakk sér niður, veitingastaðir, aðrir en skyndibitastaðir, í mars auk þess sem þá var lagt bann við fleiri gestum en tveimur á heimili.
Ofan á allt þetta hafa hnúturnar gengið á víxl og fræðimenn, veitingamenn, líkamsræktarstöðvaeigendur, stjórnmálamenn, veikt fólk, heilbrigt fólk og ferðaþyrst fólk þulið skoðanir sínar í fjöl- og öðrum miðlum. Sólin skín og um helgina komu eitt þúsund ungmenni saman í almenningsgarði við St. Hanshaugen í borginni, kneyfuðu þar veigar sínar og skemmtu sér enda allt að opna víðast hvar annars staðar í Noregi og margir orðnir alllangeygðir.
„Gegnum faraldurinn höfum við átt nokkra tímamótadaga,“ sagði Johansen á fundinum í dag og nefndi þar fyrst 12. mars 2020, fyrsta lokunardaginn, sem flestir Norðmenn vilja helst muna sem minnst eftir. „Í dag leggjum við fram áætlun um enduropnun Óslóar.“
Borgarráðsformaðurinn hefur ítrekað látið í veðri vaka síðustu daga að stjórnendur Óslóar vilji fara sér hægt, opna frekar í hægum skrefum og þurfa ekki að loka aftur vegna þess að allt fari í bál og brand við að fara of geyst. Í Ósló greindist 141 nýtt smit í gær, 550 í öllu landinu.
Í dag kynnti Johansen eftirfarandi tilslakanir sem tóku gildi strax í dag (þriðjudag), fyrsta þrep af fimm:
Ein af stóru spurningum dagsins snerist um sölu áfengra drykkja á veitingahúsum og önnur um opnun líkamsræktarstöðva. Hvort tveggja tilheyrir öðru þrepinu og lýsti Johansen því yfir að þegar í næstu viku settist borgarráð á rökstóla og legði mat á hvort óhætt teldist í ljósi smittölfræðinnar þá, að stíga það skref, sem er eftirfarandi:
Hvort þetta verði að raunveruleika í næstu viku verður tilkynnt í lok hennar og gerði Johansen að lokum þann fyrirvara að vel gæti svo farið að borgarráð kysi að bíða lengur með þrep tvö, þar til óhætt þætti að stíga það skref.