Átta létust í eldsvoða í Riga

Slökkviliðið í Riga að störfum í morgun.
Slökkviliðið í Riga að störfum í morgun. AFP

Átta létust og níu slösuðust í eldvoða á ólöglegu gistiheimili í miðborg Riga í nótt að sögn aðstoðarríkislögreglustjórans í Lettlandi, Andrejs Grishins.

Fram kom í máli Grishins á blaðamannafundi í nótt að lífssýni verði notuð til að bera kennsl á þá látnu. Er það gert vegna þess hversu illa farin líkin eru þannig að ómögulegt er að bera kennsl á fólkið öðruvísi. Allir pappír íbúanna fuðruðu upp í eldinum.

Átta létust í eldsvoðanum í nótt.
Átta létust í eldsvoðanum í nótt. AFP

Gistiheimilið var til húsa á sjöttu hæð byggingar sem er í eigu ríkisins. Borgarstjórinn í Riga, Martins Stakis, segir að það hafi ekki haft rekstrarleyfi. Að sögn nágranna gistiheimilis bjó þar fólk sem misnotaði áfengi og fíkniefni.

Sandis Girgens innanríkisráðherra staðfestir að slökkviliðsmenn hafi ekki fengið að fara í hefðbundið eftirlit í byggingunni frá því í janúar. Eigendur gistiheimilisins hafi sett upp rammgerðar stálhurðir og neitað að hleypa eldvarnaeftirlitinu inn. Stjórnvöld voru búin að taka ákvörðun um að loka gistiheimilinu áður en eldurinn braust út í nótt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert