Óskað var eftir aðstoð sprengjusérfræðinga til að rannsaka dularfullan hlut sem líktist handsprengju í skógi í grennd við borgina Passau í Þýskalandi á mánudagskvöld. Sérfræðingarnir komust að því að um hjálpartæki ástalífsins væri að ræða.
Kona á skokki lét lögreglu vita, sem svo óskaði eftir aðstoð sprengjusérfræðinganna.
Þeir voru fljótir að átta sig á að ekki var um handsprengju að ræða heldur hjálpartæki ástalífsins en auk þess voru smokkar og sleipiefni í poka.
Fram kemur í yfirlýsingu lögreglu vegna málsins að innihaldi pokans hafi verið komið á ruslahauga.
Ekki sé vitað hversu lengi pokinn hafi verið á staðnum, né hvernig hann endaði þar.