Evrópuþingmaður handtekinn í Brussel

Evrópuþingmaðurinn Ioannis Lagos.
Evrópuþingmaðurinn Ioannis Lagos. AFP

Þingmaður á Evrópuþinginu, Ioannis Lagos, sem var framarlega í flokki Gullinnar dögunar, nýnasistaflokksins gríska, var handtekinn í Brussel í gær. Hann ætlar að berjast á móti framsali að sögn saksóknara.

Ioannis Lagos var handtekinn á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar skömmu eftir að þingmenn á Evrópuþinginu samþykktu að svipta hann friðhelgi. 

Að sögn Katrien Meulemans, saksóknara í Belgíu, hafnar Lagos því að hann verði framseldur til Grikklands en þar bíður hans 13 ára vist á bak við lás og slá. Nú þurfi að fara yfir lagalega stöðu framsalsmálsins og á meðan er honum gert að sæta gæsluvarðhaldi. Ákvörðun um framsal verður tekin innan 15 daga. 

Lagos, sem er 48 ára gamall útkastari á næturklúbbi, var kjörinn á Evrópuþingið árið 2019. Hann fór þangað sem félagi í stjórnmálaflokki Gullinnar dögunar en síðar breytti hann skráningunni í að vera sjálfstæður þingmaður. 

Hann var ásamt öðrum leiðtogum Gullinnar dögunar dæmdur sekur um ýmis brot í Grikklandi í október. Þar á meðal rekstur skipulagðra glæpasamtaka. Aftur á móti var ekki hægt að framfylgja dómnum á meðan Lagos naut friðhelgi sem þingmaður á Evrópuþinginu. 

Seint á mánudagskvöld fór fram leynileg atkvæðagreiðsla á þinginu þar sem mikill meirihluti þingmanna greiddi atkvæði með því að hann yrði sviptur friðhelgi (658-25).

Réttarhöldin yfir leiðtogum Gullinnar dögunar þóttu ein mikilvægustu réttarhöld í sögu nútímastjórnmála í Grikklandi. Meðal þeirra sem þar voru dæmdir var stofnandi og leiðtogi flokksins, Nikos Michaloliakos. Alls voru rúmlega 50 einstaklingar dæmdir við réttarhöldin fyrir margvísleg brot. Þar á meðal rekstur skipulagðra glæpasamtaka, morð, líkamsárásir og ólöglegan vopnaburð. 

Meðal annars voru þeir dæmdir fyrir morðið á rapparanum Pavlos Fyssas en hann var stunginn til bana á kaffihúsi í úthverfi Aþenu í september 2013. Lagos var umdæmisstjóri Gullinnar dögunar á því svæði, Piraeus. 

Saksóknarar sögðu að morðið hefði verið framið með vitund yfirmanna flokksins og byggði saksóknari það á upptökum úr símtölum milli félaga innan Gullinnar dögunar kvöldið sem Fyssas var myrtur. Morðið hafi verið hluti af ofbeldisverkum flokksmanna í garð flóttafólks og andstæðinga flokksins í stjórnmálum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert