Hæstiréttur Bandaríkja leyfir lífstíðardóma fyrir börn

Sem stendur er aftaka unglinga óheimil í Bandaríkjunum.
Sem stendur er aftaka unglinga óheimil í Bandaríkjunum. AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna dæmdi í síðustu viku að bandarískir dómarar þurfi ekki að skera úr um hvort von um sé á endurhæfingu afbrotamanna sem eru undir lögaldri áður en þeir eru dæmdir í lífstíðarfangelsi. Þetta var úrskurður dómstólsins í máli Mississippi-ríkis gegn Brett Jones. Jones var nýorðinn 15 ára þegar hann myrti afa sinn árið 2004. Ári síðar var Jones dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir verknaðinn. Úrskurður Hæstaréttar gegn Jones er talinn binda enda á tilhneigingu dómstólsins til að takmarka refsigetu stjórnvalda í Bandaríkjunum gagnvart afbrotamönnum undir lögaldri.

Í úrskurði Hæstaréttar, sem ritaður var af Brett Kavanaugh hæstaréttardómara, kemur fram að engar sérstakar niðurstöður hvað varðar þroska eða betranleika afbrotamanna undir lögaldri séu nauðsynlegar til þess að hægt sé að dæma þá í lífstíðarfangelsi. Hæstaréttadómarinn Sonia Sotomayor andmælti niðurstöðu dómstólsins og ásakaði íhaldssaman meirihluta hans um að ónýta fyrri fordæmismál í málefninu.

Kennedy takmarkar lífstíðardóma fyrir unglinga 

Árið 2005 komst Hæstiréttur Bandaríkjanna að þeirri niðurstöðu að dauðarefsingar fyrir afbrotamenn undir lögaldri samræmdust ekki stjórnarskrá Bandaríkjanna. Síðan þá hefur dómstóllinn unnið að því að takmarka getu ríkisstjórnvalda í Bandaríkjunum til að beita hörðustu refsingum sínum gegn afbrotamönnum undir lögaldri.

Anthony Kennedy, fyrir miðju.
Anthony Kennedy, fyrir miðju. AFP

Ein helsta ákvörðun Hæstaréttar í þessu málefni var úrskurður réttarins í máli Evan Miller gegn Alabama-ríki árið 2012. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að samkvæmt áttundu viðbót bandarísku stjórnarskrárinnar mætti ekki dæma afbrotamenn undir lögaldri til lífstíðarfangelsis fyrir brot sem annars krefjast þess sem lámarksrefsingar. Túlkaði Hæstiréttur slíka dóma sem brot á réttindum Bandaríkjamanna gegn óvægnum og óvenjulegum refsingum. Þessi túlkun var síðan rýmkuð árið 2016 í dómi Hæstaréttar í máli Montgomery gegn Louisiana-ríki, sem einnig veitti dæmdum afbrotamönnum sem höfðu fengið lífstíðardóma sem lámarksrefsingu réttinn til endurmats á máli þeirra.    

Breyttur tíðarandi

Lykilatkvæðið í þeim ákvörðunum var oftar en ekki fyrrverandi hæstaréttadómarinn Anthony Kennedy. Hann lét af störfum árið 2018 og tók Kavanaugh við sæti hans í Hæstarétti. Skipun Kavanaugh markaði tímamót í ákvörðunartöku Hæstaréttar í mörgum málefnum og eru réttindi afbrotamanna einungis eitt af þeim málefnum þar sem aukin íhaldssemi Hæstaréttar Bandaríkjanna hefur leitt af sér breytta ákvörðunartöku í úrskurðum hans.    

Hæstaréttardómarinn Sonia Sotomayor andmælti ákvörðun dómstólsins í sératkvæði.
Hæstaréttardómarinn Sonia Sotomayor andmælti ákvörðun dómstólsins í sératkvæði. AFP

Í sératkvæði sem dómarinn Sotomayor skrifaði segir hún að þessi úrskurður Hæstaréttar gangi gegn því fordæmi sem fyrri dómar hafi sett. Hún bendir á að ríki sem skilyrða lífstíðardóm við mat á óbetranleika afbrotamannsins dæmi margfalt færri afbrotamenn undir lögaldri til lífstíðarfangelsis heldur en ríki sem ekki eru með slík skilyrði. Einnig eru sjötíu prósent slíkra afbrotamanna af öðrum kynþætti heldur en hvítum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert