Kórónukrísa Indlands er krísa heimsins

Heilbrigðisstarfsmenn undirbúa bóluefni gegn Covid-19 á Indlandi.
Heilbrigðisstarfsmenn undirbúa bóluefni gegn Covid-19 á Indlandi. AFP

Hryllingurinn sem fylgt hefur uppgangi kórónuveirunnar á Indlandi hefur valdið miklum áhyggjum á heimsvísu, sérstaklega í ljósi þess að uppgangurinn getur orðið til vandræða á alþjóðavísu. Er það vegna þess að smitin geta auðveldlega dreifst til annarra landa og vegna stökkbreytinga sem geta haft slæm áhrif.

BBC greinir frá.

„Veiran virðir ekki landamæri, þjóðerni eða aldur, eða kyn eða trú,“ segir Soumya Swaminathan, yfirmaður vísindamála hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. 

„Og það sem er að gerast á Indlandi núna hefur því miður líka gerst í öðrum löndum.“

Líkur á útbreiðslu

Faraldurinn hefur leitt í ljós hversu samtengdur heimurinn er í raun. Ef mörg kórónuveirusmit eru á kreiki innan eins lands er líklegt að þau breiðist út til annarra landa. 

Eins og Íslendingar, og fleiri þjóðir þekkja geta smit lekið á milli landa þrátt fyrir að skorður hafi verið settar á ferðalög og fólk sé skimað og sent í sóttkví við komuna til landsins. Ef ferðamaður kemur frá stað þar sem smittíðni er há er líklegra að hann beri veiru með sér. Nýlega greindust um 50 farþegar í flugvél frá Nýju-Delí til Hong Kong með kórónuveirusmit. 

Tvöfalda stökkbreytingin veldur áhyggjum

En það er önnur ástæða fyrir áhyggjum heimsins af uppgangi faraldursins á Indlandi; ný afbrigði veirunnar. 

Eitt slíkt hefur nú þegar litið dagsins ljós á Indlandi og ber heitið B.1.617. Sumir hafa kallað það „tvöföldu stökkbreytinguna“ vegna tveggja lykilbreytinga á veirunni. Einhverjar rannsóknir hafa bent til þess að þetta afbrigði eigi aðeins auðveldara með að smitast á milli fólks en upphaflegt afbrigði hennar. Sömuleiðis hafa rannsóknirnar bent til þess að mótefni eigi erfiðara með að koma í veg fyrir smit. Vísindamenn eru þó enn að rannsaka afbrigðið og hversu mikið ónæmi tapast með tilkomu þess. 

„Ég held ekki að það hafi verið sett fram nein gögn sem benda til þess að þetta sé flóttastökkbreyting, en það myndi þýða að hún gæti ekki verið stöðvuð með bóluefnum gegn Covid-19,“ sagði Jeff Barrett, framkvæmdastjóri Covid-19-erfðafræðideildar Wellcome Sanger-stofnunarinnar, í samtali við BBC.

„Ég tel að við þurfum augljóslega að fylgjast vel með, en það er engin ástæða til þess að hræðast stöðuna ofsalega,“ bætti Barrett við. 

https://www.bbc.com/news/world-asia-india-56907007

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert