Sjö hryðjuverkamenn handteknir í Frakklandi

Aldo Moro var rænt skammt frá heimili hans í Róm. …
Aldo Moro var rænt skammt frá heimili hans í Róm. Hann var í svörtu bifreiðinni á myndinni en lífverðir hans voru í hvítu bílunum. Fjórir lífverðir hans voru skotnir til bana og einn særðist. AFP

Sjö fyrrverandi liðsmenn Rauðu herdeildanna hafa verið handteknir í Frakklandi og að sögn forseta Frakklands, Emmanuels Macrons, er þriggja leitað. Rauðu herdeildirnar voru samtök öfgavinstrisinna á Ítalíu. Samtökin myrtu meðal annars Aldo Moro, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Ítal­íu, árið 1978.

Talið er að með handtökunum sé Macron að senda nágrönnum sínum í austri friðartákn því Frakkland hefur löngum verið athvarf liðsmanna Rauðu herdeildanna vegna stefnu sem François Mitterrand, leiðtogi sósíalista, setti í valdatíð sinni í embætti forseta Frakklands. 

Emmanuel Macron forseti Frakklands tilkynnti um handtökurnar í dag.
Emmanuel Macron forseti Frakklands tilkynnti um handtökurnar í dag. AFP

Svonefnd Mitterrand-stefna (Doctrine Mitterrand) var sett á laggirnar árið 1985 en samkvæmt henni er liðsmönnum Rauðu herdeildanna veitt hæli gegn því að hætta ofbeldisverkum og að þeir séu ekki eftirlýstir á Ítalíu fyrir morð eða aðrar blóðsúthellingar. 

Án þess að nefna þá handteknu með nafni segir í yfirlýsingu Macrons að fólkið sé eftirlýst fyrir mjög alvarlega glæpi. Tekið er fram að Macron hafi ekki með þessu afturkallað stefnu Mitterrands. Aftur á móti skilji Frakkar vel nauðsyn þess að réttlætið nái fram að ganga þegar hryðjuverkamenn eru annars vegar. 

Rauðu herdeildirnar stóðu fyrir fjölda pólitískra hryðjuverka á áttunda áratugnum og snemma á þeim níunda, þegar hálfgerð skálmöld ríkti á Ítalíu, en mesta athygli vakti ránið á Aldo Moro árið 1978, sem meðlimir Rauðu herdeildanna síðan myrtu.  

Rauðu herdeildirnar voru umsvifamiklar á Ítalíu árum saman.
Rauðu herdeildirnar voru umsvifamiklar á Ítalíu árum saman. AFP

Áratugum saman hefur staðið styr milli Frakka og Ítala en talið er að í Frakklandi haldi til hundruð einstaklinga sem eru eftirlýstir fyrir ofbeldisglæpi á Ítalíu. Árið 2019 sagði Matteo Salvini, þáverandi innanríkisráðherra Ítalíu, að hann myndi senda Macron bréf og fara fram á að hryðjuverkamönnum sem hefðu stráfellt Ítala yrði ekki lengur heimilað að dvelja í Frakklandi og drekka kampavín.

Núverandi utanríkisráðherra Ítalíu, Luigi Di Maio, fagnaði handtökunum og segir að enginn geti látið sig hverfa frá ábyrgð sem viðkomandi beri á sársauka og skaða sem hann hafi veitt öðrum. Að sögn Di Maios höfðu ríkin með sér samstarf um handtökurnar. 

Marina Petrella.
Marina Petrella. AFP

Meðal þeirra sem voru handteknir í dag er Marina Petrella, 66 ára, en árið 2008 kom þáverandi forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, í veg fyrir framsal hennar eftir að eiginkona hans, Carla Bruni Sarkozy, hafði afskipti af málinu en hún fæddist á Ítalíu.

Petrella var við afar slæma heilsu á þeim tíma en hún hafði verið dæmd í lífstíðarfangelsi á Ítalíu. Ákvörðun Sarkozys vakti mikla reiði meðal ráðamanna í Róm. Lögmaðurinn Irene Terrel, sem er verjandi Petrella og fjögurra annarra liðsmanna Rauðu herdeildanna, segir að hún sé afar ósátt við ákvörðun franskra stjórnvalda.

Frá því á níunda áratug síðustu aldar hafi þetta fólk verið undir verndarvæng franskra yfirvalda og breytt lífi sínu til hins betra. Fólkið hafi búið í Frakklandi í meira en 30 ár og eigi þar börn og barnabörn. Hún segir að handtökunni verði mótmælt. 

Frakkar hafa vísað nokkrum þekktum öfgasinnum úr landi áður. Þar á meðal Maurizio Locusta sem var eltur uppi og framseldur 1987 en hann var dæmdur fyrir morð. 

Frétt mbl.is

Jacques Chirac rauf stefnu Mitterrands árið 2002 með því að samþykkja framsal háskólakennarans Paolos Persichettis en hann tengdist Rauðu herdeildunum. Jafnframt var samþykkt að framselja Cesare Battisti árið 2004 en hann flúði til Suður-Ameríku áður en til þess kom.

Árið 2019 var hann loks fangelsaður og dæmdur í lífstíðarfangelsi á Ítalíu fyrir fjögur morð sem hann framdi á áttunda áratug síðustu aldar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert