Tugþúsundir manna í Kólumbíu mótmæltu í dag fyrirhuguðum breytingum á skattkerfi landsins sem gagnrýnendur segja gera íbúana fátækari. Fóru mótmælin fram í skugga kórónuveirufaraldursins, en dauðsföll af völdum veirunnar hafa aldrei verið fleiri þar í landi en um þessar mundir.
Ivan Duque, forseti Kólumbíu, og ríkisstjórn hans hafa lagt til að hækka skattgreiðslur þeirra sem hafa tekjur sem eru jafnvirði 80 þúsund íslenskra króna á mánuði. Með þessu er ríkisstjórnin að lækka frítekjumark launþega í landinu.
Þá er einnig lagt til að skattleggja jarðarfarir, leggja söluskatt á fleiri vörur og þjónustu svo sem vatn og rafmagn, auk þess sem lagt er til að komið verði á hátekjuskatti fyrir þá sem hafa tekjur yfir (jafnvirði) 330 þúsund íslenskum krónum eða búa yfir eignum með samanlagt virði yfir 160 milljónir íslenskra króna.
Tilgangur breytinga á skattkerfi landsins er að afla ríkissjóði Kólumbíu 23,3 þúsund milljarða kólumbískra pesóa, jafnvirði 778 milljarða íslenskra króna, á tíu árum. Landið hefur upplifað mikinn efnahagssamdrátt á liðnu ári og lækkaði verg landsframleiðsla um 6,8% í fyrra.
Mikill fjöldi fólks mætti á götur margra borga til að mótmæla áformum ríkisstjórnarinnar og voru 47.500 lögreglumenn og aðrir viðbragðsaðilar kallaðir út vegna mótmælanna.
Um fimmtungur íbúa landsins er án atvinnu og eru lágmarkslaun í landinu jafnvirði ríflega 30 þúsund íslenskra króna. Um 50 milljónir búa í landinu.
„Þessar breytingar munu valda því að milljónir Kólumbíumanna munu líða hungur,“ sagði Francisco Maltese, leiðtogi verkalýðshreyfingarinnar CUT.