Yfir 200 þúsund Indverjar eru látnir af völdum Covid-19 og virðist ekkert lát vera á nýjum smitum þar í landi. Telja sérfræðingar að tala látinna sé mun hærri. Hvergi í heiminum eru smitin jafn mörg og á Indlandi síðustu vikuna og hafa ríki tekið höndum saman um að veita þessari næstfjölmennustu þjóð heims aðstoð í baráttunni við kórónuveiruna.
Kórónuveiran hefur lagt 3,1 milljón jarðarbúa að velli samkvæmt tölum AFP-fréttastofunnar. Síðasta sólarhringinn eru staðfest ný smit á Indlandi 360 þúsund talsins og yfir þrjú þúsund dauðsföll. Í höfuðborginni, Nýju-Delí, er skortur á eldiviði þar sem líkbrennslur hafa vart undan.
Örvæntingarfullir ættingjar þeirra sem eru fárveikir af veirunni hafa safnast saman við sjúkrahús og lyfjaverslanir í þeirri von að geta útvegað ástvinum lyf, súrefni og önnur hjálpartæki í baráttunni við sjúkdóminn.
Einn þeirra, Priyanka Mandal, hefur í heila viku leitað í örvæntingu eftir því að kaupa súrefni fyrir móður sína sem er með Covid-19. Hún segir að lyf séu einnig uppurin. „Það skiptir engu máli hvaða tíma þetta tekur. Ég verð að bíða hér, ég á engan að nema mömmu,“ segir hún við fréttamann AFP þar sem hún beið eftir aðstoð.
Yfirvöld í Singapúr greindu frá því í dag að þau hefðu sent tvær þotur fullar af súrefnisbirgðum til Indlands og eins hafa Bandaríkin sent þangað milljónir skammta af AstraZeneca-bóluefni því afar lágt hlutfall Indverja hefur verið bólusett.