Kveikti skógarelda til að leyna morði

AFP

Skógareldar sem loguðu í Kaliforníu í fyrra voru kveiktir til þess að leyna morði. Þetta kom fram á blaðamannafundi í gær. Tveir létust í skógareldunum.

Markley-eldarnir kviknuðu í Solano-sýslu í Norður-Kaliforníu 18. ágúst, skammt frá þeim stað þar sem lögreglan fann brunnið lík 32 ára gamallar konu sem var saknað, Priscilla Castro.

Áður hafði verið greint frá því að Castro hefði verið saknað frá því hún fór á stefnumót með Victor Serriteno tveimur dögum áður en eldarnir kviknuðu. Enginn sá hana eftir það. 

Tom Ferrara, lögreglustjóri í Solano, segir að það sé niðurstaða rannsóknar lögreglu sem staðið hafi yfir í átta mánuði að Serriteno hafi vísvitandi kveikt Markley-eldana til að leyna glæpnum. 

Serriteno var handtekinn í september og sakaður um að hafa drepið Castro á nú yfir höfði sér að vera einnig ákærður fyrir íkveikju og að hafa myrt tvo menn. Þá Douglas Mai og Leon James Bone en þeir létust báðir á heimilum sínum af völdum skógareldanna.  

Markley-eldarnir sameinuðust síðar fleiri skógar- og kjarreldum í Kaliforníu og saman mynduðu þeir stærstu og verstu skógarelda í sögu Kaliforníu. Talið er að aðrir skógareldar en Markley hafi kviknað eftir mikið eldingaveður er tæplega 11 þúsund eldingar mældust í norðurhluta ríkisins í hitabylgju sem þá geisaði.

Samanlagt eyðilögðu eldarnir yfir 363 þúsund ekrur (1.469.009 hektara) lands á þekktu vínræktarsvæði ríkisins. Tugþúsundir þurftu að yfirgefa heimili sín vegna eldanna og um 1.500 hús urðu eldunum að bráð. Alls létust sex manns í skógareldunum sem geisuðu norður af San Francisco í tvo mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert