Henrik Magnell, sem er næstráðandi í bólusetningaráætlun Blekinge-héraðs, segir að með þessu sé hægt að flýta bólusetningum þeirra sem ætla að láta bólusetja sig enn frekar.
Olof Blivik, sóttvarnalæknir í Blekinge, bendir á að bóluefni AstraZeneca veiti gríðarlega góða vörn við Covid-19 og hættan sem fylgi Covid-19 sé margfalt meiri fyrir eldra fólk en að fá mögulega afar sjaldgæfar aukaverkanir af bólusetningunni. „Ég ráðlegg öllum eindregið að þiggja það bóluefni sem þeim er boðið,“ segir hann á SVT.
Nýjum smitum heldur enn áfram að fjölga í Jämtland Härjedalen og staðan í heilbrigðiskerfinu erfið þar. Bæði á gjörgæsludeildum sjúkrahúsa og á sérstökum Covid-deildum. Vegna þessa hefur verið ákveðið að framlengja sóttvarnareglur sem áttu að gilda til 2. maí, svo sem grímuskyldu í almenningssamgöngutækjum og innandyra þar sem náin samskipti eru óhjákvæmileg.
Staðan er grafalvarleg og allir verði að taka persónulega ábyrgð meðal annars með því að forðast samskipti við annað fólk ef hægt er. Ef fólk finnur fyrir minnstu einkennum þá er nauðsynlegt að halda sig heima segir Micael Widerström, sóttvarnalæknir í Jämtland Härjedalen. Flest smit undanfarnar tvær vikur eru í sveitarfélögunum Härjedalen og Åre, en á sama tíma er hlutfall þeirra sem hafa verið bólusettir að minnsta kosti einu sinni rétt um 20% í Åre.
Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu rýndi gögn um áhættu á hinni sjaldgæfu tegund blóðtappa í mismunandi aldurshópum og bar saman við þrenns konar upplýsingar um tíðni sýkinga Covid-19; fáar sýkingar eða 55 á hverja 100.000 íbúa, miðlungsmargar eða 401 á hverja 100.000 íbúa, margar eða 886 á hverja 100.000 íbúa. Þá var skoðað að hve miklu leyti bólusetning með bóluefni AstraZeneca kom í veg fyrir sjúkrahúsvist, innlögn á gjörgæslu og dauðsföll, til samanburðar við tilvik hinna sjaldgæfu blóðtappa. Sýnt þótti fram á að ávinningur af notkun bóluefnisins ykist með hækkandi aldri og aukinni tíðni smita að því er segir í umsögn Lyfjastofnunar Evrópu um bóluefni AstraZeneca.