Að minnsta kosti 44 létust þegar tugþúsundir pílagríma komu saman í Meron í Ísrael í gærkvöldi. Benjamín Netanjahú forsætisráðherra er á vettvangi slyssins sem er eitt það mannskæðasta í Ísrael í langan tíma.
Flestir þeirra sem létust eru heittrúaðir gyðingar sem komu saman á stærstu athöfninni sem hefur farið fram í Ísrael frá því Covid-19-faraldurinn braust út. Gyðingarnir höfðu komið saman á fjallinu Meron til að fagna Lag BaOmer-trúarhátíðinni en á þessum stað er talið að gröf rabbínans Shimon Bar Yochai sé að finna en hann var uppi á annarri öld. Hann var einn af riturum Talmúð, safns rita sem innihalda trúarhefðir gyðinga.