Rússneska lögreglan handtók í dag þekktan mannréttindalögfræðing, Ivan Pavlov, sem er verjandi stjórnarandstæðingsins Alexei Navalní.
Samtökin sem Pavlov stýrir, Team 29, greina frá þessu og kemur fram í tilkynningu að Pavlov sé grunaður um saknæmt athæfi. Team 29 eru samtök lögfræðinga og blaðamanna sem berjast fyrir réttindum fólks í Rússlandi.
Pavlov er sakaður um uppljóstranir um gang bráðabirgðarannsóknar en fyrir slíkt brot er refsingin allt að þriggja mánaða fangelsisdómur.
Nafn samtakanna er vísun í 29. grein stjórnarskrár Rússlands sem tryggir tjáningarfrelsið. Eins er fjallað um glæpi gegn ríkinu, svo sem landráð og njósnir, í 29. grein hegningarlaganna.
Pavlov er verjandi stofnunar Navalnís (FBK) og héraðsskrifstofa flokks Navalnís í Rússlandi eftir að saksóknari setti samtökin á lista yfir öfgahópa. Á sama lista eru vígasamtökin Ríki íslams og Al-Qaeda og eru FBK samtökin nú bönnuð í Rússlandi.
Hann fer einnig með mál blaðamannsins fyrrverandi, Ivan Safronov, sem var handtekinn í júlí í fyrra sakaður um landráð og að hafa komið ríkisleyndarmálum til leyniþjónustu Tékklands. Safronov er gert að sæta gæsluvarðhaldi þangað til í júlí.
Samkvæmt Team 29 var leitað á skrifstofu samtakanna í Pétursborg og á heimili Pavlov og eiginkonu hans.