Tólf unglingar og börn voru á meðal þeirra sem létust í mannþröng þegar þúsundir pílagríma komu saman í Meron á Lag-BaOmer-trúarhátíðinni í Ísrael á fimmtudaginn.
Alls létust 45 manns og 150 særðust á hátíðinni og hafa verið borin kennsl á fólkið. Forsætisráðherra Ísraels hefur lýst yfir þjóðarsorg í landinu og var því flaggað í hálfa stöng við helstu byggingar landsins.
Sorgarferli í gyðingatrú sem er þekkt undir nafninu „shiva“ tók við snemma á laugardag en gert var hlé á því í 24 tíma á föstudag til þess að halda heilagan friðardag gyðinga, sabbat.
Hinn 36 ára Avigdor Hayut fór með tveimur sonum sínum á hátíðina og lentu þeir allir undir troðningnum. Hann lýsir því í samtali við fréttastofu BBC hvernig tíu ára sonur hans lá við hlið hans og sagði „pabbi, ég er að deyja,“ en Hayut segir það kraftaverk að hann hafi lifað af. Þrettán ára sonur hans, Yedidya, lifði ekki af.
Tvö yngstu fórnarlömbin voru bræður; hinn fjórtán ára Moshe Natan Englander og hinn níu ára Yehoshua Englander, báðir frá Jerúsalem. Fjórir hinna látnu voru Bandaríkjamenn, þar af var einn átján ára skiptinemi, Donny Morris frá New Jersey.