Fyrrverandi hermaður, sem játaði að hafa drepið átta ára gamla stúlku í frönsku Ölpunum fyrir nokkrum árum, kom fyrir dóm að nýju í dag, sakaður um að hafa barið mann til dauða nokkrum mánuðum áður.
Nordahl Lelandais, sem er 38 ára gamall, var færður úr fangelsi í dómshúsið í Chambéry en hann hefur játað að hafa drepið Arthur Noyer, liðþjálfa í franska hernum, aðfaranótt 12. apríl 2017. Lelandais hafði tekið Noyer upp á puttanum.
Lelandais hefur einnig játað að hafa drepið Maëlys de Araujo í ágúst 2017 en málið vakti mikinn óhug meðal almennings í Frakklandi á sínum tíma. Réttað verður yfir Lelandais vegna þess máls á næsta ári.
Hann segir að um óviljaverk hafi verið að ræða í báðum tilvikum en játningar hans urðu til þess að tugir óleystra manndrápa í Frakklandi eru nú rannsökuð að nýju til að kanna hvort hann hafi mögulega átt aðild að þeim.
Yfir 100 blaðamenn fylgdust með þegar Lelandais var leiddur inn í réttarsalinn í morgun. Hann er með grímu fyrir andlitinu og dökka húfu sem hylur höfuð hans að augum.
Lelandais sagði við yfirheyrslur hjá lögreglu að hann og Noyer hafi slegist þegar þeir stöðvuðu á bílastæði og heldur því fram að Noyer hafi átt upptökin. Lelandais segir að hann hafi ekki ætlað sér að drepa Noyer.
Saksóknari er á öðru máli og segir að Lelandais hafi sett Noyer meðvitundarlausan í skott bifreiðarinnar og keyrt um 20 km þar sem hann losaði sig við hann í vegkanti. Hann er ákærður fyrir manndráp af ásetningi en hámarksrefsing fyrir slíkt brot í Frakklandi er 30 ára fangelsi.
Rannsóknin beindist ekki að Lelandais vegna dauða Noyer fyrr en hann var handtekinn fyrir morðið á Maëlys de Araujo en hún hvarf aðfaranótt 27. ágúst 2017 úr brúðkaupi sem hún var gestur í ásamt foreldrum sínum í Chambéry.
Lögregla leitaði að stúlkunni mánuðum saman áður en hún handtók Lelandais sem einnig var gestur í brúðkaupinu. Í febrúar 2018 upplýsti hann lögreglu um hvar líkamsleifar hennar væri að finna en blóð úr henni fannst í bifreið hans.
Óttast var að Lelandais eigi aðild að mun fleiri óupplýstum mannshvörfum í héraðinu. Þrátt fyrir að hafa verið til rannsóknar í þrjú ár er ekkert sem tengir hann við fleiri slík mál. Niðurstaða réttargeðlækna er að hann er sjúklega lyginn.
Misjafnt er eftir fréttum hvort Maëlys de Araujo er sögð hafa verið átta ára eða níu ára þegar hún lést í frétt AFP-fréttastofunnar og í frétt Le Monde er sagt átta ára.