Nemendur í mörgum ríkjum Bandaríkjanna eru að snúa aftur í staðkennslu eftir að hafa mánuðum saman verið í fjarkennslu út af Covid-19. Á sama tíma var tilkynnt um nokkrar vopnaðar árásir í grunnskólum. Meðal annars skaut 11 eða 12 ára gömul þrjá í sínum skóla í gær.
Klukkan 7 í gærmorgun rændi nemandi í herskóla, vopnaður riffli, skólabíl fullum af skólabörnum skammt frá Fort Jackson í Suður-Karólínu. Maðurinn, sem er 23 ára gamall, særði engan og var handtekinn af lögreglu. Hann verður ákærður fyrir barnsrán í 19 ákæruliðum, bílþjófnað og fleiri brot. Ekki er vitað hvað manninum gekk til.
Að sögn lögreglustjórans á svæðinu, Leon Lott, eru útköll sem þessi sennilega skelfilegustu tilkynningar sem lögregla fær; að búið sé að ræna skólabíl með börnum um borð af einhverjum vopnuðum byssu. „Og það var það sem við upplifðum í morgun,“ sagði Lott í viðtali við ABC sjónvarpsstöðina í gær.
Í Idaho tók stúlka í sjötta bekk, sem þýðir að hún er annað hvort 11 eða 12 ára, byssu upp úr bakpoka sínum og hóf skothríð klukkan 9 að morgni í skólanum. Tvö skólasystkini hennar særðust í árásinni sem og starfsmaður skólans. Kennara tókst að afvopna stúlkuna og hún handtekin í kjölfarið.
Nokkru síðan í Albuquerque í Nýju-Mexíkó var miðskóli (miðstig) rýmdur þar sem kennari tilkynnti að hann hefði séð nemanda með byssu. Í ljós kom að vopnið reyndist vera snjallsími en atvikið þykir sýna stöðu bandarískra kennara, að þeir eru alltaf á verði, samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar.
Í Suður-Karólínu var síðan menntaskólanemi handtekinn fyrir að koma með byssu í skólann í gær og daginn áður var annar nemandi handtekinn í skóla í Alabama vopnaður tveimur byssum og hnífi. AFP segir að í flestum tilvikum rati þessar fréttir ekki einu sinni í helstu miðla landsins heldur bara í fjölmiðla á viðkomandi stað.
Yfir 248 þúsund bandarískir nemendur hafa staðið frammi fyrir byssuofbeldi í skólum frá því 13 nemendur voru skotnir til bana í fjöldamorðinu við Columbine menntaskólann árið 1999, samkvæmt tölum Washington Post. Inni í tölunni eru þeir sem hafa orðið vitni að slíku ofbeldi og þeir sem hafa neyðst til þess að flýja út úr skóla vegna skotárása. Árið 2018 voru skotárásir í bandarískum skólum 25 talsins og árið 2019 voru þær 23.
Vegna Covid-19 hefur dregið mikið úr slíkum árásum enda flestir skólar landsins lokaðir mánuðum saman og kennslan flutt á netið. Níu skotárásir voru gerðar í bandarískum skólum í fyrra og tvær á fyrsta ársfjórðungi 2021. Margir skólar eru að opna að nýju þessa dagana eftir að hafa verið lokaðir síðan í fyrra. Óttast sérfræðingar að slíkum árásum eigi eftir að fjölga til muna það sem eftir lifir árs meðal annars vegna andlegrar vanlíðunar nemenda í kjölfar Covid.
26. apríl hóf 12 ára gamall drengur í miðskóla í Minnesota skothríð á gangi skólans. Faðir hans baðst afsökunar á atvikinu og segir að Covid hafi mikil áhrif á líðan barna. „Covid. Þessi börn eru að verða þunglynd. Þau eiga enga vini. Þau vita ekki hvað þau eiga að gera. Þau sitja við tölvurnar og heili þeirra er farinn að grillast,“ sagði hann í viðtali við KTSP sjónvarpsstöðina eftir að sonur hans var handtekinn.