Tæplega þrítugur maður hlaut í gær tveggja ára og fjögurra mánaða fangelsisdóm í Héraðsdómi Suður-Østfold í Fredrikstad í Noregi fyrir að hafa ekki komið 15 ára gamalli stúlku til hjálpar á herbergi á Hotel Olav Digre í miðbæ Sarpsborgar í ágúst í fyrra þegar hún var í þannig ástandi að hún taldist ósjálfbjarga af fíkniefnaneyslu, en stúlkan fannst látin á hótelherberginu.
Lá stúlkan í 29 klukkustundir í rúmi hótelherbergisins í þannig ástandi að maðurinn gat ekki náð sambandi við hana. Daginn áður höfðu þau komið til Sarpsborgar frá Ósló, tæplega 90 kílómetra vegalengd, með rútu þar sem maðurinn hafði fest kaup á 50 töflum af benzódíazepínlyfinu Rivotril, sljóvgandi og kvíðastillandi lyfi sem meðal annars er notað sem viðbótarmeðferð við flogaveiki.
Morguninn eftir kveðst maðurinn hafa haft áhyggjur af ástandi stúlkunnar, en hann var sjálfur í mikilli vímu þá. Hafði hún neytt ýmissa fíkniefna auk Rivotril-taflnanna, fyrst verið með meðvitund en svo orðið meðvitundarlaus, eftir framburði mannsins að dæma.
Hann hafi fyllst ótta og hringt í ýmsa aðila, vin sinn, upplýsingasíma um eitranir og móður sína. Aldrei hringdi hann þó í neyðarnúmerið 113, sem í Noregi gefur samband við heilbrigðisstarfsfólk sem sent getur sjúkrabifreiðar á vettvang, og sofnaði að lokum sjálfur klukkan þrjú um nóttina.
Starfsfólk hótelsins frétti fyrst af stúlkunni þegar símavörður 113-línunnar hringdi þangað til að tilkynna um málið daginn eftir. Maðurinn hafði þá vaknað um klukkan 13:30 og veitt því athygli að varir stúlkunnar voru bláleitar að lit. Hann tók þá mynd af stúlkunni og hugðist senda hana vininum, sem hann hafði áður rætt við, gegnum samskiptamiðilinn Snapchat. Fyrir mistök birti hann myndina hins vegar á „story“ hjá sér á Snapchat, fyrir augum allra sem honum tengdust þar.
Það var svo hálftíma síðar sem manninum hugkvæmdist loks að hringja í 113 þaðan sem svo var hringt til hótelsins og sjúkrabifreið og lögregla send á vettvang. Stúlkan reyndist svo látin er lögregla og sjúkraflutningafólk komu á vettvang.
„Dómurinn gefur skýr skilaboð um að þeim, sem kemur að manneskju sem getur sér enga björg veitt, ber skylda til að koma henni til hjálpar,“ sagði John Skarpeid, lögmaður lögreglunnar í austurumdæmi norsku lögreglunnar og saksóknari í málinu, við norska ríkisútvarpið NRK í gær.
Skarpeid fór fram á eins árs og tíu mánaða fangelsisdóm yfir manninum, en rétturinn taldi hæfilega refsingu tvö ár og fjóra mánuði. Var honum ekki gerð refsing fyrir að deila mynd af stúlkunni látinni á Snapchat, enda talið óviljaverk, en gert að greiða fjölskyldu stúlkunnar 150.000 krónur, jafnvirði rúmlega 2,2 milljóna íslenskra króna, í bætur.