Dagurinn hefur verið annasamur hjá breskum ferðaskrifstofum en í gær var tilkynnt um tólf áfangastaði sem fólk getur ferðast til án þess að þurfa að fara í sóttkví við heimkomuna. Leiðin liggur til Portúgal segja þær.
Tui, sem er stærsta ferðaskrifstofa Bretlands, segir að Portúgal sé sá áfangastaður sem flestir hafa áhuga á en ekki hefur verið jafn mikið að gera hjá Tui í marga mánuði. Talskona Tui segir að 60% þeirra sem hafi skipt við stofuna í gær hafi keypt ferð til Portúgal.
Búið sé að bæta við flugferðum og pakkaferðum fyrir þá sem vilja komast sem fyrst í burtu en nýr listi tekur gildi 17. maí.
Dubai og Tyrkland er áfram á rauðum lista yfir ferðalög Breta og Spánn er gulur þannig að margir hafa velt fyrir sér hvað verði um bókaðar ferðir þangað.
EasyJet segir að ekki verði flogið til landa sem eru rauð og að þeir sem eigi bókað flug til gulra landa geti breytt bókuninni án endurgjalds eða fengið inneign.
British Airways mun aðeins endurgreiða ef fluginu er aflýst en aðrir geti óskað eftir því að fá inneignarnótu.