Fleiri en 300 særðust í átökum sem áttu sér stað á milli Palestínumanna og ísraelsku lögreglunnar við moskuna Al-Aqsa í borginni Jerúsalem í morgun.
Palestínskir mótmælendur köstuðu grjóti að ísrealskum lögreglumönnum sem beittu táragasi, gúmmíkúlum og hljóðsprengum í átökunum. Óttast var að átökin héldu áfram í dag í tengslum við árlega fánagöngu í Jerúsalem þar sem Ísraelar minnast þess er þeir hertóku Austur-Jerúsalem árið 1967. Margir Palestínumenn telja fánagönguna vera beina ögrun, en algengt er að yngri kynslóðir Ísraela gangi um hverfi múslima og syngi þjóðlega söngva. Skipuleggjendur göngunnar tilkynntu fyrir skömmu að henni verði aflýst. Þó söfnuðust hópar saman við Vesturvegginn, eða Grátmúrinn, í austurhluta borgarinnar.
Al-Aqsa-moskan er heilög í augum bæði múslima og gyðinga. Eftir ákall frá forstöðumanni moskunnar, Sheikh Omars Kiswani, var svæðið hreinsað eftir átökin svo að bænarstundir vegna Ramadan gætu hafist að nýju.
Átök milli Palestínumanna og ísraelsku lögreglunnar hafa staðið yfir frá því á föstudag. Jafn hörð átök hafa ekki brotist út á svæðinu síðan 2017. Í kjölfar átakanna í morgun voru 228 Palestínumenn fluttir á sjúkrahús samkvæmt upplýsingum frá palestínska Rauða hálfmánanum. Sjö þeirra eru þungt haldnir. Ísraelska lögreglan segir að 21 lögreglumaður hafi slasast og voru þrír fluttir á sjúkrahús.
Bandaríkin, Evrópusambandið, Rússland og Sameinuðu þjóðirnar hafa meðal annarra kallað eftir því að báðar hliðar láti af ofbeldi.