Systkinin sem buðu Hitler birginn

Fangamyndir af Sophie og Hans Scholl sem Gestapo lögreglan tók …
Fangamyndir af Sophie og Hans Scholl sem Gestapo lögreglan tók í febrúar 1943.

Nafn Sophie Scholl er ekki þekkt víða fyrir utan Þýskaland, en í heimalandinu er hennar minnst sem hetju sem bauð þýska nasistaforingjanum Adolf Hitler birginn og greiddi fyrir gjörðir sínar með lífi sínu. 

Síðastliðna helgi var þess minnst að hundrað ár væru liðin frá fæðingu Sophie, sem fæddist 9. maí 1921. Andspyrnuhreyfing hennar og bróður hennar Hans gegn nasistum Þýskalands hefur verið viðfangsefni fjölda bóka og kvikmynda. 

Systkinin ólust upp á miklum umrótartímum í Þýskalandi, en áttu þó góða og rólega æsku. Faðir þeirra var bæjarstjóri í bænum Forchtenberg í suðvesturhluta landsins og Sophie ásamt bræðrum sínum fimm var alin upp á lútersku heimili þar sem kristin gildi voru í hávegum höfð. Þegar Sophie komst á unglingsaldur var Adolf Hitler orðinn leiðtogi Þýskalands. 

Fyrst um sinn studdu bæði Sophie og Hans bróðir hennar nasistaforingjann. Eins og fjölmargir aðrir unglingar gengu þau í ungliðahreyfingu Hitlers. Faðir þeirra, sem var alla tíð afar gagnrýninn á Hitler, fordæmdi upphaflegan áhuga systkinanna. Áhrif fjölskyldu og vina á skoðanir þeirra urðu sífellt meiri sem og framferði nasista gagnvart gyðingum. Þegar Hitler rést síðan inn í Pólland árið 1939 urðu systkinin enn staðfastri í andstöðu sinni. 

„Ekki segja mér að þetta sé fyrir föðurlandið“

Þegar ungir Þjóðverjar voru sendir á vígvöllinn skrifaði Sophie til kærasta síns Fritz Hartnagel, sem var hermaður: „Ég skil ekki hvernig fólk getur ítrekað fórnað lífi annarra. Ég mun aldrei skilja það og mér finnst það hræðilegt. Ekki segja mér að þetta sé fyrir föðurlandið.“

Sophie fór á eftir bróður sínum í háskólann í Múnchen þar sem hann lærði læknisfræði. Í háskólanum nutu systkinin félagsskaps sama hópar vina sem deildi áhuga þeirra á listum, menningu og heimsspeki. Talið er að Sophie, sem lærði heimsspeki og líffræði, hafi haft gaman af dansi og notið þess að mála og spila á píanó. 

Á háskólaárunum stofnaði Hans ásamt vini sínum Alexander Schmorell andspyrnuhreyfinguna Hvítu Rósina. Sophie gekk til liðs við hreyfinguna ásamt Christopher Probst og Willi Graf og skömmu síðar slóst prófessorinn Kurt Huber einnig í hópinn. 

Með stuðningi vina sinna prentaði hópurinn út dreifirit, þar sem borgarar voru hvattir til andstöðu við stjórnvöld nasista. Í dreifiritunum voru útrýmingar gyðinga einnig fordæmdar og kallað var eftir stríðslokum. „Við látum ekki þagga niður í okkur. Við erum þín slæma samviska, Hvíta Rósin mun ekki láta þig í friði,“ sagði í einu dreifiritanna. 

Hópurinn gaf út sitt sjötta dreifirit í upphafi árs 1943 þar sem sagði: „Þýskaland er að eilífu skaddað ef þýska æskan stígur ekki upp, hefnir og friðþægir samtímis, kremur kvalara sína og finnur nýja Evrópu.“

Dreifiritið átti eftir að verða þeirra síðasta. 18. febrúar þetta sama ár unnu Hans og Sophie að dreifingu bæklinganna á háskólasvæðinu í Múnchen. Ekki liggur fyrir af hverju, en einhverra hluta vegna fór Sophie upp á efstu hæð byggingarinnar þar sem útsýni var yfir inngang aðalbyggingar skólans, og henti fjölmörgum bæklingum yfir handrið svala sem þar voru. Talið er að hún hafi viljað að sem flestir sæju dreifiritið. 

Tekin af lífi 21 árs að aldri 

Umsjónarmaður í skólanum sá til Sophie þar sem hún stóð á svölunum og tilkynnti atvikið til Gestapo lögreglunnar. Hún og bróðir hennar voru handtekin, yfirheyrð og í kjölfar sýndarréttarhalda dæmd til dauða. Þau neituðu að gefa upp nöfn annarra liðsmanna Hvítu rósarinnar, en þrátt fyrir það náðu yfirvöld að hafa uppi á fjórmenningunum Schmorell, Probst, Graf og Huber. Innan nokkurra mánaða höfðu þau öll verið tekin af lífi. 

Þegar Sophie, þá 21 árs, var leidd til aftöku sinnar sagði hún: „Svo fallegur, sólríkur dagur og ég þarf að fara. Hvaða máli skiptir dauði minn, ef í gegnum okkur þúsundir eiga eftir að vakna upp og grípa til aðgerða?“

Þessara orða Sophie og hugrekki hennar og bróður hennar er enn minnst í Þýsklandi þar sem skólar, vegir og byggingar heita eftir þeim. Sumir hafa gagnrýnt það að hinna fjögurra liðsmanna Hvítu rósarinnar sé ekki minnst á jafn áberandi hátt og systkinanna. 

Þá hefur það oft verið gagnrýnt hvernig nafn Sophie hefur verið notað á síðustu árum. 

Það olli til að mynda mikilli reiði þegar þjóðernisflokkurinn AfD gaf fyrir fáeinum árum út slagorðið „Sophie Scholl hefði kosið AfD“. Þá komst nafn Sophie aftur í fréttir síðasta haust þegar ung kona steig á svið á mótmælum gegn sóttvarnaaðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins, og bar sig saman við Sophie. 

Umfjöllun BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert