Fólksfjölgunin sú hægasta í áratugi

Dregið hefur umtalsvert úr fólksfjölgun í Kína.
Dregið hefur umtalsvert úr fólksfjölgun í Kína. AFP

Kínverjum hefur ekki fjölgað jafn hægt í áratugi samkvæmt nýbirtum tölum frá kínverskum stjórnvöldum. Að meðaltali var fjölgunin 0,53% á ári síðustu tíu árin en var 0,57% áratuginn á undan, það er frá árinu 2000 til 2010. Kínverjar eru nú 1,41 milljarður talsins. 

Niðurstaðan eykur þrýsting á stjórnvöld í Peking um að gera meira til þess að hvetja pör til þess að eignast fleiri börn til að koma í veg fyrir fólksfækkun.

Upplýsingunum var safnað undir lok síðasta árs þegar sjö milljónir starfsmanna ríkisins tóku manntal með því að ganga hús úr húsi og safna upplýsingum.

Forstjóri Hagstofu Kína, Ning Jizhe, segir að á síðasta ári hafi fæðst 12 milljónir barna í Kína sem er umtalsverð fækkun frá árinu 2016 er þau voru 18 milljónir. Það sama ár var sú regla afnumin í Kína að pör mættu einungis eignast eitt barn og fólki heimilað að eignast tvö börn.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert