Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur höfðað mál gegn bresk/sænska lyfjafyrirtækinu AstraZeneca þar sem þess er krafist að lyfjafyrirtækið afhendi 90 milljónir skammta til viðbótar til ríkja sambandsins fyrir júlí.
Talsmaður framkvæmdastjórnarinnar, Stefan De Keersmaecker, greindi frá þessu á blaðamannafundi áðan. Um er að ræða 90 milljónir skammta til viðbótar við þær 30 milljónir sem afhentar voru á fyrsta ársfjórðungi.
Krafan er hluti af deilu milli ESB og AstraZeneca vegna þess að fyrirtækið hefur ekki staðið við gerða samninga um afhendingu á bóluefni til ríkja ESB það sem af er ári. Um er að ræða tugi milljóna skammta. Ísland er hluti af bóluefnasamstarfi ESB líkt og Noregur.
Framkvæmdastjórnin hefur höfðað tvö mál gegn fyrirtækinu og fengið flýtimeðferð í bæði skiptin fyrir dómi í Belgíu.
Framkvæmdastjórnin heldur því fram að AstraZeneca hafi brotið samkomulag um að afhenda 300 milljónir skammta á fyrri hluta ársins. AstraZeneca segir aftur á móti að samningurinn kveði á um að það muni gert allt sem í þeirra valdi stendur til að uppfylla ákvæði samningsins um afhendingu.
AstraZeneca vísaði fyrst til vandræða við framleiðsluna á rannsóknarstofnum sinni í ESB og neitaði að flytja bóluefni sem framleitt er í Bretlandi til ríkja ESB. Í stað þess að afhenda 120 milljónir skammta á fyrsta ársfjórðungi afhenti það 30 milljónir skammta. Á öðrum ársfjórðungi, þegar það á að afhenda 180 milljónir skammta, ætlar það að afhenda 70 milljónir.
Samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar hefur AstraZeneca ekki tekist að standa við það og nú séu afhentar 10 milljónir skammta á mánuði.
De Keersmaecker segir að það sé ekki tilgangur málshöfðunarinnar að krefjast þess að AstraZeneca verði gert að greiða sekt eða miskabætur heldur að tryggja það að þessir skammtar verði afhentir.
Fjölmörg ríki sem eiga aðild að bóluefnasamningi ESB hafa lagt ákveðnar hömlur á notkun bóluefnis AstraZeneca vegna hættunnar á mjög sjaldgæfum blóðtappa í kjölfar bólusetningar. Er nú víða miðað við 55 ára og eldri en hvorki Danmörk né Noregur hafa notað bóluefnið síðan fyrst var greint frá hættunni á að fá blóðtappa eftir bólusetningu.
Í Bretlandi er miðað við 40 ára og eldri en áður var bóluefnið notað fyrir alla aldurshópa þar í landi.