Að minnsta kosti níu eru látnir í skotárás í rússneskum framhaldsskóla. Samkvæmt fyrstu fréttum eru átta nemendur látnir og einn kennari. Árásin var gerð í borginni Kazan sem er í Mið-Rússlandi.
Tíu til viðbótar særðust í árásinni að því er fram kemur í frétt ríkisfréttastofunnar TASS. Talsmenn lögreglunnar í Kazan, sem er í Tatarstan, hafa ekki viljað tjá sig um árásina við fjölmiðla.
Fréttir rússneskra fjölmiðla herma að tvær manneskjur hafi gert árásina og önnur þeirra, 17 ára ungmenni, hafi verið handtekin.
Myndir í ríkissjónvarpi Rússlands sýna tugi manna standa fyrir utan skólabyggingu og slökkvilið og lögreglu loka götum í nágrenninu. Heimildir Interfax herma að hinn árásarmaðurinn hafi falið sig á fjórðu hæð hússins.
Uppfært klukkan 8:26 - greint hefur verið frá því í rússneskum fjölmiðlum að árásarmaðurinn sem faldi sig á fjórðu hæð skólans hafi verið skotinn til bana.
TASS hefur eftir sjúkraliði að tíu hafi særst og verið fluttir á sjúkrahús. Fréttastofan hefur eftir kennara við skólann að hann hafi verið að kenna þegar hann heyrði sprengingu og síðan skothvelli.
Borgaryfirvöld segja að börn hafi verið flutt á brott úr skólanum og eftirlit hert við aðra skóla í borginni.