Skilnaður á dagskrá eftir fundi Gates og Epstein

Melinda og Bill Gates árið 2015.
Melinda og Bill Gates árið 2015. AFP

Melinda French Gates hafði áhyggjur af samskiptum eiginmanns hennar við milljarðamæringinn og barnaníðinginn Jeffrey Epstein þegar hún ráðfærði sig við lögfræðinga vegna mögulegs skilnaðar við Bill Gates, stofnanda Microsoft.

Gates-hjónin tilkynntu í síðustu viku að þau ætluðu að skilja eftir langt hjónaband. Ekkert kom fram um ástæðu skilnaðarins.

The Wall Street Journal greindi frá því að árið 2019 hefði Melinda ráðið lögfræðiteymi til að ræða hugsanlegan skilnað. Heimildarmenn blaðsins segja að hún hafi haft áhyggjur af viðskiptum Bills og Epsteins, sem framdi sjálfsvíg í fangaklefa árið 2019. Hún hafi verið óánægð með samskipti þeirra, að minnsta kosti frá árinu 2013, að sögn The Guardian. Þeir hittust eftir að Epstein var dæmdur fyrir kynferðisbrot. 

Hún er sögð hafa hitt skilnaðarlögfræðinga sína í október árið 2019, eða á svipuðum tíma og New York Times birti grein þar sem sagt var frá fundum Bills með Epstein. Meðal annars gisti Bill í glæsihýsi Epsteins í New York.

Talsmaður Bills segir hann standa við yfirlýsingu sína um Epstein í greininni í New York Times um að hann hafi hitt Epstein en hvorki átt viðskipti við hann né verið vinur hans.

„Ég fór ekki til Nýju-Mexíkó, Flórída eða Palm Beach eða neitt slíkt. Fólk í kringum hann sagði: „Ef þú vilt safna peningum í þágu heilbrigðismála á heimsvísu og sinna auknu góðgerðarstarfi þá þekkir hann fullt af ríku fólki,““ sagði Bill Gates í yfirlýsingunni.

Hann sagði að eingöngu karlmenn hefðu verið á fundunum sem hann sótti og að hann hefði aldrei farið í neinar veislur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert