Flugfélagið Air France og flugvélaframleiðandinn Airbus verða ákærð fyrir manndráp af gáleysi eftir að áfrýjunardómstóll Parísarborgar sneri við frávísunarúrskurði á hendur félögunum nú í dag.
Málið varðar flugslys frá árinu 2009 þegar flug AF447 frá Ríó til Parísar hrapaði í Atlantshafið. Slysið er það mannskæðasta í sögu flugfélagsins en allir 228 um borð létu lífið. Flak flugvélarinnar fannst með hjálp fjarstýrðra kafbáta árið 2011. Rannsóknarteymi ályktuðu að orsök slyssins væru bilanir í mælabúnaði flugvélar og rangar ákvarðanir flugstjóranna.
Aðstandendur fórnarlamba fagna þessari ákvörðun franskra dómstóla og segja hana mikinn létti. „Við fordæmum þó að það hafi tekið tólf ár að komast á þennan stað. Tólf ár af ósviknum vilja andspænis óvissu og flóknum ferlum, við gáfumst aldrei upp,“ segir Daniele Lamy, forsvarsmaður aðstandenda fórnarlambanna.
Bæði Airbus og Air France segjast munu áfrýja úrskurðinum og segja háttsemi sína ekki refsiverða. Í kjölfar slyssins hefur þjálfun flugmanna í óvæntum aðstæðum verið bætt víða um Evrópu. Félag flugstjóra í Frakklandi fagnar ákvörðuninni sem færir ábyrgðina af flugstjórum og yfir á fyrirtækin tvö. Félagið segir mælum og ófullnægjandi þjálfun um að kenna.