Bandarískur dómari hefur ekki orðið við beiðni Samtaka skotvopnaeiganda í Bandaríkjunum um greiðslustöðvum. Sú ákvörðun greiðir leið fyrir lögsókn ríkissaksóknara New York, Letita James, sem hefur kært samtökin fyrir fjármálamisferli. Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu.
Dómarinn í málinu, Harlin Hale, taldi að samtökin höfðu gripið til þessarar ákvörðunar í þeim tilgangi að komast hjá lögsókn New York-ríkis. Kom það honum á óvart að lykilsstarfsfólk innan samtakanna hafi ekki komið að þeirri ákvörðun að biðja um greiðslustöðvun, þar á meðal fjármálastjóra samtakanna, yfirlögfræðing þeirra eða meirihluta stjórnarinnar.
Samtökin sóttu um greiðslustöðvun í janúar í ár og ákváðu að flytja samtökin til Texas frá New York-ríkis, þar sem samtökin voru stofnuð árið 1871. Ríkissaksóknari New York-ríkis kærði samtökin í ágústmánuði í fyrra fyrir fjármálamisferli og ásakaði meðal annars framkvæmdarstjóra samtakanna, Wayne LaPierre, um að nota sjóði samtakanna fyrir að greiða fyrir einkaþotur fyrir sjálfan sig og fjölskyldu sína.
Saksóknarinn hefur tjáð sig um niðurstöðu dómarans í tísti. Segir hún að enginn er yfir lögum hafinn og samtökin fái ekki ráða því hvort þau svari til saka vegna gjörða þeirra eða ekki.
Samtökin hafa lýst því yfir að þau muni halda áfram að berjast fyrir réttindum félaga þeirra og telja þau niðurstaða dómarans meini þeim ekki frá því að sækja aftur um greiðslustöðvum eða færa höfuðstöðvar sínar til Texas. Einn af stjórnarmönnum samtakanna hefur tjáð sig um málið og segist vera vonsvikinn með niðurstöðu dómarans.