Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) tilkynnti í dag að fullbólusettir Bandaríkjamenn geti hætt að nota grímur og gæta að fjarlægðarmörkum við flest tilefni.
Í umfjöllun New York Times segir að nýju tilmælin marki þáttaskil í baráttunni við kórónuveiruna.
Grímuskylda og -notkun hefur verið gríðarlega umdeild í Bandaríkjunum og verið táknræn fyrir þann pólitíska klofning sem orðið hefur sífellt meira áberandi í bandarísku samfélagi frá því á síðasta ári.
Í frétt NYT er talið að tilmælin eigi eftir að verka sem hvatning fyrir þær milljónir Bandaríkjamanna sem ekki hafa viljað þiggja bólusetningu. Á miðvikudag höfðu 154 milljónir Bandaríkjamanna fengið að minnsta kosti einn skammt bóluefnis og um þriðjungur þjóðarinnar, rúmlega 117 milljónir íbúa, var fullbólusettur.
Verulega hefur þó hægt á gangi bólusetninga síðustu vikur. Að jafnaði eru 2,16 milljónir skammtar gefnar daglega, en þeir voru 36% fleiri um miðjan apríl.
„Við höfum öll beðið lengi eftir þessari stundu,“ sagði yfirmaður Sóttvarnastofnunarinnar Rochelle P. Walensky á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag.
„Ef að þú ert fullbólusettur getur þú byrjað að gera þá hluti sem þú hættir að gera út af faraldrinum,“ sagði Walensky.
Áfram þurfi allir Bandaríkjamenn að bera grímur við heimsóknir til lækna, á spítala, á hjúkrunarheimili, í fangelsi og skýli fyrir heimilislausa og við notkun almenningssamgangna.
„Við verðum að fara að losa um takmarkanir svo fólk fari að finna fyrir eðlilegu ástandi,“ sagði Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, á blaðamannafundinum. „Að draga til baka grímuskyldu innandyra er mikilvægt skref í rétta átt,“ sagði hann.