Seðlafundur í Noregi ráðgáta

Eldgamlir hundrað króna seðlar, ónotaðir í númeraröð, með Henrik Arnold …
Eldgamlir hundrað króna seðlar, ónotaðir í númeraröð, með Henrik Arnold Wergeland, ljóðskáld, sagnfræðing og fyrsta fornminjavörð Noregs, á myndskreytingu. Seðlarnir voru í notkun árin 1962 til 1977. Ljósmynd/Feda skole

Nemendur í Feda-skólanum í Kvinesdal í Agder í Suður-Noregi komust í fréttirnar á föstudaginn í síðustu viku þegar þrír þeirra spókuðu sig á útivistarsvæði skammt frá skólanum og fundu þar bunka af hundrað króna seðlum sem út af fyrir sig væri varla stórfrétt nema hvað að seðlarnir voru hálfrar aldar gamlir, algjörlega ónotaðir og í númeraröð.

Nemendurnir fundu málmkassa sem reyndist innihalda tvær tréöskjur, fullar af seðlum, alls 100.000 norskar krónur í hundrað króna seðlum, upphæð sem framreiknuð til dagsins í dag nemur samkvæmt norsku hagstofunni SSB 1,3 milljónum króna, jafnvirði 19,5 milljóna íslenskra króna.

Kenningar hrannast upp

Á seðlunum blasti við andlit sem enginn finnendanna kannaðist við, enda prýddi hann hundraðkallinn sem gilti árin 1962 til 1977, Henrik Arnold Wergeland, ljóðskáld, sagnfræðingur og fyrsti fornminjavörður Noregs, fæddur 17. júní 1808 og látinn aðeins fáeinum vikum á eftir Jónasi Hallgrímssyni, sumarið 1845.

Lögreglan í Agder leitaði til Sparisjóðsins í Flekkefjord um vísbendingar um uppruna fjárins, en þar hristu menn bara höfuðið. „Þetta er mjög sérstakt mál og gamlir peningar. Alls óvíst er að við komumst að hinu sanna,“ segir Jan Magne Olsen, talsmaður lögreglunnar í Kvinesdal og Flekkefjord, við norska ríkisútvarpið NRK.

Seðlunum hafði verið vandlega pakkað inn, augljóslega til geymslu um …
Seðlunum hafði verið vandlega pakkað inn, augljóslega til geymslu um lengri tíma. Eru þeir hluti þýfis frá innbroti í banka í Tromsø sumarið 1970 eða sparifé sérvitrings? Kenningarnar eru margar. Ljósmynd/Feda skole

Kenningarnar um uppruna seðlanna gömlu í Kvinesdal hrannast nú upp og hefur ein þeirra tyllt sér á toppinn. Þarna sé kominn hluti þýfis úr frægu og óupplýstu innbroti í Sparisjóð Tromsøsundet í Tromsø aðfaranótt mánudagsins 24. ágúst 1970. Voru þar á ferð þjófar sem taldir voru atvinnumenn í faginu, þeir hefðu hvort tveggja vitað að óvenjumikið fé yrði í skápnum yfir helgina og beitt logskurðartæki til að opna peningaskáp bankans.

Sparifé sérvitrings?

Höfðu þeir á brott með sér 205.000 krónur í þúsund króna og minni seðlum sem ekki finnast heimildir um að hafi nokkru sinni fundist. Þrír ungir menn voru handteknir í kjölfarið, en fljótlega sleppt þegar engar haldbærar vísbendingar fundust gegn þeim. Tveir rannsóknarlögreglumenn komu frá Ósló og fundu fingraför á skápnum sem engu skiluðu við rannsókn málsins. Lögreglan í Tromsø taldi þjófana aðkomumenn, sem löngum hefur verið vinsæl kenning í sakamálum í dreifbýli.

Frétt af innbrotinu í Tromsø aðfaranótt 24. ágúst 1970 í …
Frétt af innbrotinu í Tromsø aðfaranótt 24. ágúst 1970 í dagblaðinu Nordlys. Þar voru atvinnumenn taldir hafa verið að verki, hvort tveggja virtust þeir hafa vitað af óvenjumiklu fé í skápnum auk þess sem þeir beittu logskurðartæki til að rjúfa stálið. Skjáskot/Nordlys

Jørn Lier Horst, þjóðþekktur glæpasagnahöfundur frá Stavern og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður til margra ára, gefur lítið fyrir kenninguna um Tromsø-innbrotið. „Ég hugsa að þetta séu peningar úr einkaeigu einhvers sem hvorki treysti bankanum né rúmdýnunni, en gróf sparifé sitt í skóginum,“ segir Horst.

Bendir hann á að seðlarnir séu ónotaðir og í númeraröð sem gefi til kynna að þeir hafi komið beint úr stofnun sem höndlaði með peninga, til dæmis banka. Fátítt sé að þýfi eða ránspeningum sé vandlega pakkað og það grafið niður. „Slíkt fé er falið í dauðans ofboði, þessum peningum er pakkað inn til geymslu í langan tíma, svo þetta hefur verið sparifé einhvers,“ segir rithöfundurinn.

Sjaldgæf eintök fúlgu virði

Kenneth Trælandshei, formaður Sagnfræðifélags Kvinesdal, er ósammála. „Ástand seðlanna sýnir að þeir hafa líklega aldrei farið í umferð,“ segir Trælandshei og telur féð hafa verið illa fengið í öðrum landshluta, rökstyður með því að gamla E18-brautin hafi legið örskammt frá fundarstaðnum. „Það hefur verið fljótgert fyrir einhvern að fela peningana þarna,“ klykkir hann út.

Safnarar leggja einnig orð í belg. Håkon Finsland, eigandi Frímerkja- og myntverslunar Kristiansand, segir gömlu seðlana hugsanlega mun meira virði en það sem framreiknað verðmæti hagstofunnar gefur til kynna.

„Fyrir góð eintök af 100 króna seðlum með engum brotum í má fá 500 krónur [um 7.500 ISK],“ segir Finsland en nefnir auk þess svokallaða Z-seðla, eintök sem komið hafi útlitsgölluð úr prentvélum Seðlabanka Noregs. Slíkt hafi verið sjaldgæft og söfnunargildið eftir því, hundrað króna seðlar frá 1965 með raðnúmerinu Z-8000000 gætu verið allt að 20.000 króna virði stykkið, jafnvirði 300.000 íslenskra króna.

„Safnarar æpa eftir slíkum gripum. Best væri fyrir alla að slíkir seðlar enduðu hjá fólki sem kann að meta sögulegar minjar. Mun betra en að þeir fari í tætarann,“ segir Finsland og óttast örlög seðlanna þegar þeim verður skilað til seðlabankans.

NRK
NRKII (fundur fjárins í síðustu viku)
Dagbladet
VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert