Þremur eldflaugum var skotið frá Sýrlandi í átt að Ísrael í kvöld, og er óttast að það séu teikn um að átökin fyrir botni Miðjarðarhafs séu að færast í aukana. Hörð mótmæli voru á Vesturbakkanum í dag og ekkert lát er á átökum Ísraelsmanna og Hamas-samtakanna á Gaza-svæðinu.
Ein eldflaugin náði ekki flugi og féll á sýrlenska grundu áður en hún náði til Ísraels en hinar tvær lentu á opnu svæði svo engum varð meint af. Palentínsku Tahír-hersveitirnar lýstu yfir ábyrgð sinni á árásunum.
Fjöldi skæruliða hélt að landamærum Líbanons og Ísraels við ísraelska bæinn Metulla í tvígang í dag og í kvöld. Fóru nokkrir þeirra yfir landamærin og reyndu að kveikja eld innan Ísraels, en urðu frá að víkja eftir að ísraelskir hermenn hófu skothríð. Lést einn af sárum sínum eftir að hann hafði flúið aftur til Líbanon.
Greina ísraelskir fjölmiðlar frá því að víðar hafi komið til svipaðra atvika á landamærum Ísraelsríkis, meðal annars við bæinn Karameh í Jórdaníu, en þar reyndu um 500 mótmælendur að brjóta sér leið yfir landamærin, en jórdanskir óeirðalögreglumenn komu í veg fyrir það.
Umfjöllun Jerusalem Post um eldflaugaskotin frá Sýrlandi.