Bandarísk kona segir að hún hafi óviljandi eyðilagt 26 milljón dala happdrættismiða þegar buxurnar sem hann var í voru þvegnar, samkvæmt AP-fréttastofunni. Upphæðin samsvarar um 3,2 milljörðum kr.
Þann 14. nóvember síðastliðinn var dregið í 26 milljón dala happdrætti í Kaliforníu. Fresturinn til að sækja vinninginn rann út á fimmtudaginn án þess að einhver vitjaði hans. Vinningsmiðinn var seldur í matvöruverslun í úthverfi Los Angeles-borgar og staðfestir verslunarstjóri hennar að eftirlitsmyndband sýni að konan hafi keypt miðann í versluninni. Einn af starfsmönnum verslunarinnar staðfesti einnig að konan hafi komið daginn áður en fresturinn rann út og reyndi að gera starfsfólk hennar viðvart að hún hafi óviljandi eyðilagt miðann.
Eintak af eftirlitsmyndbandinu hefur verið sent til Happadrættis Kaliforníu og talsmaður þess segir að tilkall konunnar yrði rannsakað. Ef enginn vinningshafi finnst þá rennur upphæðin til almenningsskóla í Kaliforníu.
Óvenjulegt er að ekki sé gert tilkall til vinninga að svo hárri upphæð.
Frá árinu 1997 hefur það einungis gerst fjórum sinnum í Kaliforníu að vinningar upp á meira en tuttugu milljónir bandaríkjadali renni ekki til einhvers heppins.