Tilslakanir í Bretlandi gætu tafist

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Áætlanir breskra stjórnvalda um afléttingu sóttvarnatakmarkana í landinu gætu tafist verulega vegna uppgangs indverska afbrigðis kórónuveirunnar í landinu. Þetta sagði Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, í sjónvarpsávarpi nú síðdegis.

Alls greindust 520 tilfelli indverska afbrigðisins í síðustu viku um gervallt Bretland, en í þessari viku greindust 1.313.

Frá og með mánudegi mega Englendingar koma saman innandyra, svo sem inni á veitingastöðum og krám. Að óbreyttu munu þær afléttingar ganga eftir en annað gildir um lokaafléttingar, sem taka eiga gildi 21. júní, þegar landið verður að fullu opnað ferðamönnum.

„Þetta nýja afbrigði gæti sett allt úr skorðum hvað áætlanir okkar varðar,“ sagði Johnson í ávarpi sínu og bætti við: „Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þessa að tryggja öryggi almennings.“

Breska heilbrigðisráðuneytið tilkynnti í dag að indverska afbrigði veirunnar væri skyndilega að skjóta rótum í norð-vesturhluta Englands, en í aðeins minna mæli í London, höfuðborg landsins. Verið væri að grípa til aðgerða til þess að stemma stigu við útbreiðslu afbrigðisins.

Vísindamenn segja að indverska afbrigðið sé meira smitandi en fyrri afbrigði kórónuveirunnar en að ekki sé enn vitað hve miklu munar. Johnson segir að það sé verkefni vísindamanna að skera úr um það sem fyrst, svo ákveða megi til hvaða ráðstafana þurfi að grípa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert