Tölvuárás lamar heilbrigðiskerfi Írlands

Írska heilbrigðiskerfið hefur verið skekið af tölvuárás.
Írska heilbrigðiskerfið hefur verið skekið af tölvuárás. AFP

Tölvukerfi írsku heilbrigðisþjónustunnar hefur verið tímabundið lokað vegna árásar netglæpamanna. Loka þurfti tímabundið ýmsum þjónustum vegna árásarinnar, þar á meðal fæðingardeildum og kvensjúkdómadeildum í Dublin. Heilbrigðisyfirvöld hafa tilkynnt að bólusetningar gegn Covid-19 muni þó halda áfram eins og er, samkvæmt Breska ríkisútvarpinu.

Framkvæmdarstjóri írsku heilbrigðisþjónustunnar, Paul Reid, sagði í sjónvarpsþættinum Morning Ireland að hafist væri handa við að sporna við svokölluðu gíslatökuforriti, þ.e. forriti sem tekur yfir tölvukerfi einstaklinga eða fyrirtækja og einungis er hægt að fjarlæga með því að greiða lausnargjald. Hann lýsir árásinni sem fágaðri og að tölvuárásin hefði áhrif á tölvukerfi heilbrigðisþjónustunnar um allt land.

Samkvæmt Reid virðist tilgangur árásarinnar að nálgast gögn úr gagnagrunnum þjónustunnar. Krafa um lausnargjald hefur enn ekki verið send írskum yfirvöldum.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert