8 frændsystkini létust í árásunum

Loftárásir Ísraela í dag urðu átta frændsystkinum og mæðrum þeirra að bana. 10 fórust í árásinni og er hún mannskæðasta árás hersins til þessa. Frændsystkinin höfðu safnast saman ásamt mæðrum sínum til að fagna Eid al-Fitrs, trúarhátíð Íslam.

Kona Mohammeds Haddidi og fimm synir þeirra voru inni í húsi í flóttamannabúðum þegar sprenging lenti á því og aðeins fimm mánaða gamall Omar var dreginn upp úr rústunum. Björgunarmenn leituðu að eftirlifendum í hrúgum af brotinni steypu. Þar lágu leikföng, Monopoly borðspil og hátíðarmatur sem var tilbúinn fyrir máltíð sem aldrei var notið. Þetta kemur fram á vef The Guardian.

Hjúkrunarfræðingur heldur á fimm mánaða gamla Omar sem var dreginn …
Hjúkrunarfræðingur heldur á fimm mánaða gamla Omar sem var dreginn undan rústunum eftir að loftárás varð móður hans og fjórum systkinum að bana. AFP

Fréttabygging sprengd í loft upp

Nokkrum klukkustundum eftir sprenginguna sem drap fjölskyldu Haddidis var fréttabyggingin, Al Jalaa-turninn, sem hýsti skrifstofur fréttastofanna AFP, AP og Al Jazeera, einnig fyrir sprengingu. AP fréttastofan lýsti flugskeytaárásunum sem „síðustu skrefunum til að þagga niður í fréttaflutningi af svæðinu.“

Í frétt sem var birt einungis örfáum klukkustundum áður en sprengingin lenti á byggingunni hafði fréttaritarinn Fares Akram skrifað að byggingin væri eini staðurinn í Gaza-borg þar sem honum fannst hann óhultur.

Loftárás á Al Jalaa turninn.
Loftárás á Al Jalaa turninn. AFP

Fréttastofum og öðrum í byggingunni var gefinn klukkutími til að rýma bygginguna áður en loftárásirnar dundu á henni.

Dagurinn í dag er sjötti dagur átaka milli Ísraelshers og hryðjuverkasamtakanna Hamas. samkvæmt AFP fréttastofunni eru að minnsta kosti 145 látnir á Gaza-svæðinu, þar á meðal 41 barn. Í Ísrael eru 10 látnir, þar á meðal eitt barn.

Fréttabyggingin sprengd.
Fréttabyggingin sprengd. AFP

Biden lýsir yfir áhyggjum

Forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, lýsti í símtali við Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, yfir „alvarlegum áhyggjum“ vegna ofbeldis í Ísrael og Gaza, að því er kemur fram í tilkynningu frá Hvíta húsinu.

Biden lýsti einnig yfir „sterkum stuðningi“ við rétt Ísraela til að verja sig gegn eldflaugaárásum Hamas og annarra hryðjuverkahópa. Bent er á í frétt The Guardian að Bandaríkin hafa ekki fordæmt árásina.

En Biden sagðist einnig hafa áhyggjur af öryggi blaðamanna eftir að ísraelskar flugvélar sprengdu fjölmiðlabygginguna.

AFP fréttastofan hefur eftir Netanyahu að Ísraelar hafi gert sitt ýtrasta til að tryggja öryggi óbreyttra borgara í árásunum á Gaza og nefndi hann til staðfestingar að „turnar sem innihéldu hryðjuverkastarfsemi væru rýmdir af saklausu fólki fyrir árásir.“ 

Tugþúsundir mótmæltu

Tugþúsundir tóku þátt í mótmælagöngu til stuðnings Palestínu í dag. Meðal annars var mótmælt í London, Berlín, Madríd og París.

Í London mótmæltu mörgþúsund manns. Á mótmælaskiltum þeirra mátti lesa „Hættið að sprengja Gaza“ og „Frelsið Palestínu.“ Í Madríd hrópaði fólk á götum úti: „Þetta er ekki stríð, þetta er þjóðarmorð“ og í Berlín hvöttu mótmælendur til þess að Ísrael yrði sniðgengið. Á skilti í Róm mátti lesa: „Þú þarft ekki að vera múslimi til að styðja Palestínubúa. Þú þart bara að vera manneskja.“

Á Austurvelli mótmæltu á þriðja eða fjórða hundrað árásum Íraelshers gegn Palestínumönnum undir yfirskriftinni „Stöðvum blóðbaðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert