Ítölsk stjórnvöld bregðast við fækkun Ítala

Sífellt færri börn fæðast á Ítalíu ár hvert.
Sífellt færri börn fæðast á Ítalíu ár hvert. AFP

Ítölsk stjórnvöld vinna nú að aðgerðapakka til að sporna gegn stiglækkandi fæðingartíðni. Ætlunin er að bæta stöðu foreldra svo fólk sé líklegra til að eignast börn og verður það gert með ýmsum hlunnindum eins og ríflegri barnabótum og lengra fæðingarorlofi, einkum fyrir feður. Eins og staðan er í dag fækkar Ítölum ört auk þess sem gríðarlegt bil hefur myndast milli kynslóða sem kann að skapa vandamál í náinni framtíð.

Ítalskt samfélag hefur lengi verið meðal þeirra Evrópuþjóða sem hafa lægstu fæðingartíðnina. Fæðingum hefur fækkað á hverju ári frá árinu 2012. Í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19 er staðan orðin töluvert alvarlegri. Ítölsku þjóðinni fækkaði um 400.000 manns á árinu 2020 og fjöldi nýbura kemur engan veginn til með að fylla upp í það skarð, ef ástandið helst óbreytt.  

Sérfræðingar hafa bent á það að færri börn í dag þýða færri skattgreiðendur á morgun. Ef svo mikið ójafnvægi myndast þá verður ekki nóg af vinnandi fólki til að standa undir velferðarkerfinu fyrir eldra fólkið í landinu. Meðalaldur Ítala er nú 47 ára, sá hæsti í Evrópu en hingað til hefur áherslan verið meira lögð á að tryggja stöðu eldra fólks í samfélaginu.

Hvetja fólk til barneigna

Ítölsk stjórnvöld hafa því hafist handa við að setja í gang átak, svokallað fjölskylduátak, til að hvetja fólk til fjölskyldumyndunar og barneigna. Stefnt er að því að veita ríflegri barnabætur, lengra feðraorlof o.þ.h. hlunnindi. Sérfræðingar hafa tekið vel í þessar tillögur en benda þó á að það kunni að líða þó nokkur ár áður en árangur verður sjáanlegur.

Samkvæmt könnun sem var lögð fyrir ítölsk pör kom fram að óskafjöldi eru tvö börn að meðaltali. Staðan er hins vegar sú að fæðingartíðnin er aðeins 1,24 börn á hverja konu. Ljóst er því að bil er á milli fjölda barna sem Ítalir vilja eignast og fjölda barna sem þeir í raun eignast, svo aukin hlunnindi gætu verið öflugt skref í rétta átt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert