Maður á sextugsaldri er í haldi lögreglunnar í Þrándheimi í Noregi eftir að annar, sem lögregla hefur enn ekki borið kennsl á, fannst látinn í íbúð í Lademoen þar í borginni í morgun. Barst lögreglu símtal um áttaleytið í morgun, að norskum tíma, frá læknavaktinni þangað sem hringt hafði verið úr íbúðinni og óskað eftir aðstoð.
„Við teljum andlátið hafa borið að með saknæmum hætti og höfum handtekið mann á sextugsaldri sem er grunaður,“ segir Ove Tokstad, vakthafandi aðgerðastjóri lögreglunnar í Þrándheimi, við norska ríkisútvarpið NRK.
Kveður hann grunaða hafa verið á vettvangi þegar lögreglu bar að garði. Þar sem engin skilríki fundust á hinum látna er lögreglu ekki enn sem komið er kunnugt um hver hann var í lifanda lífi og hefur því ekki gert neinum aðstandendum viðvart.
Tæknideild lögreglu er nú við störf í íbúðinni, en þar hefur að sögn Tokstad áður komið til lögreglumála. Líkið hefur verið sent til krufningar og bíður lögregla niðurstöðu hennar.
„Við erum skammt á veg komnir í rannsókninni og getum á þessu stigi lítið tjáð okkur um atburðarásina. Við reiknum með að hafa úr meiru að moða eftir því sem vettvangsrannsókn fleygir fram og þegar niðurstaða krufningar verður ljós,“ segir Hans Vang, sem fer með ákæruvald lögregluembættisins í Þrándheimi.
Skemmdarverk hafa verið unnin á bifreiðum í hverfinu, meðal annars skorið á hjólbarða, en ekki er ljóst hvort þau tengist meintu manndrápi með einhverjum hætti.
Glenda Limeira, sem býr í næstnæsta húsi við íbúðina, segir í samtali við norska dagblaðið VG að ófriður í hverfinu sé engin nýlunda. Samskipti nágranna séu þó góð sem sé bót í máli. „Ég er ekki hrædd, en hér er ekki þægilegt að ala upp börn þegar lögreglan þarf oftsinnis að koma á svæðið,“ segir Limeira.