Risavaxni fuglinn snýr aftur til Írlands

Grátrönur.
Grátrönur. Ljósmynd/Þórir N Kjartansson

Það getur verið að risastóri fuglinn, grátranan, sem hefur verið hluti af írskum þjóðsögum og var algengt gæludýr á miðöldum sé að snúa aftur til Írlands eftir meira en 300 ára fjarveru. Þetta kemur fram á vef BBC.

Grátrönupar hefur staðið í hreiðurgerð á Írlandi og standa vonir til þess að parið verða það fyrsta sinna tegundar til að fjölga sér á Írlandi í aldaraðir.

Það sást til parsins í mómýri á landi í eigu Bord na Móna, fyrrum móframleiðanda. Nákvæm staðsetning hefur hins vegar ekki verið gefin upp til að vernda fuglana.

Bord ná Móna vinnur nú að endurheimt votlendis á Írlandi en framræsla mýrlendis hefur haft mjög slæmar afleiðingar fyrir grátrönur.

Mark McCorry, helsti vistfræðingur Bord na Móna, sagði veru fuglanna á Írlandi vera mjög þýðingarmikla.

„Þó að við höfum séð þessa fugla koma til Írlands yfir vetrartímann höfum við almennt ekki séð þá á varptímanum, sagði Mark og bættir við: „Svo þetta er í raun frábær vísbending um að þeir líti út fyrir að vera tilbúnir til að snúa aftur til Írlands.“

Þá segir á Vísindavefnum að grátranan sé af trönuætt. Hún er háfætt, grá á litinn og með svartan og hvítan háls. Grátrönur eru stórvaxnir fuglar sem geta orðið allt að 130 sm. á lengd og með vænghaf á bilinu 180-240 sm.

Grátranan hefur af og til heimsótt Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert