Lítill hörgull er á norskum fréttum af fornleifaáhugafólki sem valsar um engi, tún og skóga með málmleitartæki í leit að ævafornum menjum víkingaaldar eða annarra merkistímabila Norðurlandasögunnar enda finnur það býsna oft muni sem eiga fullt erindi í fréttir.
Jon Arne Valan og synir hans tveir, Jonas og Robin, voru í göngutúr í skóginum í Larkollen í Moss, 70 kílómetra suður af Ósló, um helgina og höfðu málmleitartæki sitt meðferðis og skóflu, reyndar fyrsti göngutúrinn á árinu studdur þeim búnaði.
„Strákarnir kveiktu á tækinu og það liðu ekki meira en tíu mínútur þar til það gaf merki. Ég mokaði einni skóflufylli og kom þá niður á skotfæri,“ segir Valan í samtali við norska dagblaðið VG, en það var staðarblaðið Moss Avis sem greindi fyrst frá málinu.
Kveður Valan það enga nýlundu að finna skotfæri á förnum vegi, reyndar séu þau þó oftast notuð en svo hafi ekki verið nú. Þarna lágu milli 100 og 150 skammbyssukúlur með heilum púðurhylkjum.
„Svo kom ég auga á trékassa, eða hluta af honum og þá fór spennan að vaxa þegar ég gerði mér í hugarlund að þar kynni að leynast skammbyssa.“ Grunur feðganna fékkst staðfestur við frekari gröft, skammbyssa reyndist hafa legið hjá skotfærunum og einnig hulstur utan um hana.
„Ég varð eiginlega miklu æstari en strákarnir,“ játar faðirinn sem hefur stundað málmleitina í fimm ár án þess að finna nokkur stórmerki þar til nú. Skammbyssan, sem er þýsk Mauser, annaðhvort M1914 eða M1934, hlaupvídd 7,65 millimetrar, er að öllum líkindum frá dögum síðari heimsstyrjaldarinnar þegar Noregur var undir járnhæl þýsks innrásarliðs frá 9. apríl 1940 og til stríðsloka.
„Ég ætla mér að halda henni, ég þekki lagaákvæðin um menningarminjar og skilaskyldu þeirra,“ segir Valan við VG. Hann segir lögregluna á því að um fundið fé sé að ræða, hittegods á norsku, og þar með sé vopnið skráningarskylt. Því er Valan ekki sammála. „Hún er ónothæf og flokkast þar með ekki sem vopn. Þá telst hún bara hlutur,“ segir finnandinn.
Sem sannur sagnfræðiáhugamaður hefur Valan sent Hernaðarsamtökum Moss og Rygge (n. Moss og Rygge forsvarsforening) fyrirspurn í von um fróðleik um hvernig vopnið gæti hafa hafnað foldu neðar í Larkollen af öllum stöðum.
„Okkur langar að vita meira, en ég veit ekki alveg hvert best er að snúa sér. Að öllum líkindum er sá sem gróf hana niður löngu genginn á vit feðra sinna,“ segir fjölskyldufaðirinn um þennan óvenjulega feng málmleitargöngutúrsins um helgina.