Annað árið í röð verða hátíðarhöld Norðmanna þjóðhátíðardaginn 17. maí í skötulíki vegna sóttvarna. Hryggjarstykki dagsins í augum margra Norðmanna er skrúðganga barnanna, barnetoget, sem gengin er í velflestum byggðarlögum landsins, sú stærsta og fjölmennasta í höfuðborginni Ósló, en sú var fyrst gengin árið 1870 og lýkur samkvæmt hefð við konungshöllina þar sem konungsfjölskyldan tekur á móti börnunum.
Ekkert varð af göngunni í fyrra og ekki verður hún gengin á morgun. Að minnsta kosti ekki í raunheimum. Þrír ungir menn hafa hins vegar unnið baki brotnu að því síðustu daga að halda rafræna skrúðgöngu í sænska tölvuleiknum Minecraft.
„Okkur langar að gefa börnunum kost á örlítið skárri hátíðarhöldum en ellegar,“ segir Erlend Pilø í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, en hann hefur orð fyrir þeim þremenningum sem reka netþjóninn Skogliv, norska þjóninn fyrir Minecraft-leikinn sem settur var upp eftir að NRK hætti rekstri netþjónsins Ragnarok árið 2018, en sá gegndi áður sama hlutverki.
Hyggjast þeir félagar standa þannig að málum að frá klukkan sjö í fyrramálið til tíu að kvöldi dags geti Minecraft-spilarar um allan Noreg mætt til leiks og gengið með löndum sínum, og ekki bara löndum sínum heldur einnig sveitungum. Pilø og félagar hafa þannig byggt eftirlíkingar af ýmsum byggingum og bæjarhlutum víða um Noreg í véum leiksins svo einhverjir íbúar geti kannast við sig.
Eru heimatökin þar hæg þar sem Minecraft, sem er svokallaður sandkassaleikur, gengur einmitt út á að byggja hús og önnur mannvirki úr eins konar kubbum í þrívíðum heimi. Reyndar hefur leikurinn, sem runninn er undan rifjum sænska tölvuleikjahönnuðarins Markus Persson, ekki sérstakt markmið í sjálfu sér fyrir utan þessa sköpunargleði, þótt sumir hamir hans, svo sem Survival, bjóði upp á átök og jafnvel dreka sem leggja þarf að velli.
Segir Pilø nýjar göngur hefjast með reglulegu millibili yfir daginn og þau sveitarfélög, sem skrái sig sérstaklega til leiks, fái eigin göngu. Aðalgangan leggur af stað frá konungshöllinni í Ósló, fer um borgir og bæi í öllum landshlutum Noregs og endar svo við Stórþingið í stað hallarinnar þar sem raungangan lýkur að jafnaði vegferð sinni 17. maí.
Minecraft-gangan á morgun er ekki frumraunin að þessu leyti því einnig var haldin þar skrúðganga í fyrra með alls 9.000 þátttakendum. Áhuginn virðist þó meiri í ár því nú hafa 25.000 spilarar lýst yfir áhuga sínum á að vera með. Til samanburðar má geta þess að almennt taka um 30.000 börn þátt í göngunni í Ósló þegar farsóttir standa ekki í vegi.