Hið minnsta tveir létust þegar upphækkuð sæti í hálfbyggðri sýnagógu hrundu skammt frá Jerúsalem.
BBC greinir frá því að hátt í 650 rétttrúnaðargyðingar hafi verið í sýnagógunni í Givat Zeev, hernumdu svæði á Vesturbakkanum. Hópurinn var saman kominn til þess að fagna upphafi Shavuot-hátíðarinnar.
Fáeinar vikur eru síðan 45 krömdust til bana á hátíð rétttrúnaðargyðinga í Mount Meron í norðurhluta Ísrael.
Talið er að um 60 hafi slasast í Givat Zeev í dag. Þar af eru tíu þungt haldnir.
Myndskeið af atvikinu sýna hóp fólks syngja og dansa áður en sætaraðirnar gefa sig.
Doron Turgeman, yfirlögregluþjónn í Jerúsalem, segir að einhverjir eigi eftir að verða handteknir vegna atviksins, en öryggis í byggingunni var ekki gætt og viðburðurinn var haldinn þrátt fyrir að tilskilin leyfi hafi ekki fengist.