Norski lögmaðurinn Helge Morset dregur í efa að norsk stjórnvöld hafi í raun lagalega heimild til að krefjast þess að fólk sitji af sér sóttkví á sóttkvíarhótelum. Hvetur lögmaðurinn almenning allan til að neita að greiða þær sektir, sem honum eru gerðar fyrir brot gegn hótelsóttkvínni, svo reyna megi lagarökin fyrir dómstólum landsins.
„Í réttarríkinu skulu inngrip yfirvalda í líf þegnanna grundvallast á lagabókstafnum. Yfirvöld verða að sýna fram á að skilyrði laga séu uppfyllt í hverju tilfelli fyrir sig, svo þegnunum sé unnt að skilja og sjá fyrir réttarstöðu sína,“ segir Morset sem er formaður nefndar alþjóðlegu mannréttindasamtakanna ICJ, International Commission of Jurists, um löggjöf sprottna af kórónuveirufaraldrinum.
„Afleiðingar þess að lagagrundvöllinn skorti sáum við í sumarbústaðamálinu [þegar norsk stjórnvöld hugðust skylda norska sumarbústaðaeigendur í sóttkví eftir dvöl í sumarbústöðum sínum í Svíþjóð] þar sem norska ríkið tapaði málinu. Hvað sóttkvíarhótel snertir finnast engar röksemdir stjórnvalda fyrir að viðhlítandi lagastoð fyrirfinnist,“ segir Morset við norska dagblaðið VG, en það var Rett24 sem greindi fyrst frá viðhorfum hans.
Kallar lögmaðurinn nú eftir rökum stjórnvalda fyrir því að fólk megi ekki einfaldlega sitja heima hjá sér í sóttkví. „Ekkert er hæft í að það sé bráðnauðsynlegt að fólk sem í langflestum tilfellum er sóttarlaust skuli dvelja á hóteli á eigin kostnað í stað þess að vera í sóttkví heima hjá sér,“ segir hann og bætir því við að nauðsyn hóteldvalarinnar verði að vega þyngra en þær neikvæðu afleiðingar sem hún hefur á hótelgestinn.
„Þegar yfirvöld grípa svo freklega inn í grundvallarréttindi þegnanna til frelsis þurfa þau að sýna þeim það svart á hvítu hvers vegna þær aðgerðir sem gripið er til séu nauðsynlegar og að þær standist lög.“
Jon Wessel-Aas, formaður Lögmannafélags Noregs, segir félagið þegar í nóvember í fyrra hafa lagt fram efasemdir sínar um hótelvistunina í umsögn sinni um reglugerð dómsmálaráðuneytisins um heimild til að skylda almenning til dvalar á sóttkvíarhótelum.
„Skylda að viðlagðri refsingu til þess sem augljóslega er frelsisskerðing gagnvart borgurunum, þegar ekki er sýnt fram á smit, og sóttkví getur auk þess farið fram í eigin húsnæði eða sambærilegri aðstöðu, er að mínu viti ekki forsvaranleg aðgerð og auk þess brot gegn stjórnarskrárvörðum réttindum til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu,“ segir Wessel-Aas í skriflegu svari til VG.
Telur hann í ljósi framangreinds að ríkinu sé ekki stætt á að refsa með sektum fyrir brot gegn hótelreglunum. „Það er óheppilegt að ríkisstjórnin hafi uppi slíkar refsihótanir þar sem þær verða í sjálfu sér til þess að margir sætti sig við ólöglega frelsisskerðingu,“ telur formaðurinn enn fremur.
Lars Jacob Hiim, ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu, játar fyrir VG að vissulega sé dvöl á sóttkvíarhóteli þvingunarráðstöfun af hálfu stjórnvalda, en vísar því á bug að þau hafi ekki alla ástæðu til að leggja þessa skyldu á þegnana.
„Sóttvarnayfirvöld hafa ítrekað lagt áherslu á mikilvægi sóttvarnahótela sem vörn gegn smiti til þess að hægja á útbreiðslu smitgjarnari og háskalegri veiruafbrigða frá útlöndum. Heilbrigðisstofnun Noregs benti til dæmis á það 28. apríl, að enn væri ástæða til að vera á varðbergi gagnvart stökkbreyttum afbrigðum. Því er áríðandi að berjast áfram gegn innfluttu smiti. Sóttkvíarhótelin hafa reynst árangursrík og málefnaleg lausn í þá átt,“ segir Hiim, sem einnig svarar skriflega.
Segir ráðuneytisstjórinn það engan veginn undir hverjum og einum komið hvort hann vilji í sóttkví á hóteli eður ei. Til að hljóta undanþágu frá þeirri ráðstöfun þurfi viðkomandi að sýna fram á að einhver þeirra undantekninga, sem í gildi eru frá hótelvistinni, eigi við.
„Brot gegn þessu getur haft sekt í för með sér. Við það er ekkert óvanalegt, að bregðast skyldu sem álögð er með reglugerð getur leitt til viðurlaga,“ skrifar hann enn fremur og bendir á að ákvæði reglugerðarinnar eigi sér öll sem eitt stoð í sóttvarnalögum landsins.
„Þar sem aðgerðir í einstökum málum eru ekki framkvæmdar á landamærum getur lögregla eða annað yfirvald við landamæragæslu ekki skipað komufarþegum á hótel. Þetta táknar ekki að þeir eigi eitthvert val. Þeir sem ekki mæta á sóttkvíarhótel án þess að njóta undanþágu þar um geta átt yfir höfði sér kæru,“ segir Hiim ráðuneytisstjóri að lokum.