Egypsk stjórnvöld hafa tilkynnt að þau ætla að breikka Súez-skurðinn um tæplega 40 metra til þess að fyrirbyggja þá hættu að skip geti aftur stíflað umferð um skurðinn. Einnig munu þau dýpka hann um tíu metra, samkvæmt Business Insider.
Forstjóri Súez-félagsins, Osama Rabie, sagði í sjónvarpsávarpi á þriðjudaginn frá áætlunum stjórnvalda og að endurbæturnar myndu taka um tvö ár. Forseti Egyptalands, Abedel Fattah el-Sisi, sagði einnig í ávarpinu að hann vonaðist til þess að ekki færi mikið mikið af almenningsfé í verkið.
Súez-skurðurinn er ein helsta skipaleið heims og fer um 12 prósent af öllum vöruflutningum heimsins um hann. Skipið Ever Given lokaði óvænt fyrir þessari siglingarleið í lok marsmánuðar þegar það festist í skurðinum og þveraði hann allan.
Ever Given var fast í sex daga og hamlaði ferð meira en 400 skipa sem biðu sitthvoru megin við skurðinn eftir því að komast þar í gegn. Skipið liggur nú í stöðuvatninu Great Bitter Lake og hefur verið gert kyrrsett af Súez-félaginu á meðan félagið semur við eigendur þess, UK Club, um bótakröfur félagsins vegna björgunaraðgerðanna.