Í kjölfar skilnaðar þeirra Bills og Melindu Gates hafa ýmsar sögusagnir verið á kreiki um hvað batt enda á 27 ára hjónaband þeirra.
Wall Street Journal greinir frá því að hugbúnaðarverkfræðingur hjá Microsoft hafi sent stjórninni bréf þess efnis að hún og Bill hafi átt í nánu sambandi í áraraðir. Stjórn Microsoft hóf óháða rannsókn árið 2019 en Bill hætti í stjórn Microsoft í mars 2020. Heimildarmenn WSJ segja þessa afsögn tengjast rannsókninni þótt Bill hafi haldið öðru fram.
Þá er því haldið fram að Melindu hafi verið í nöp við samband Bills og Jeffreys Epsteins en Bill kynntist þeim síðarnefnda í upphafi árs 2011. Melindu þótti óþægilegt að eiginmaður hennar verði tíma með manni sem hafði þremur árum áður játað sig sekan um að hafa nálgast og keypt vændi af ólögráða einstaklingi.
Bill er einnig sagður hafa falast eftir öðrum konum innan Microsoft meðan á hjónabandi þeirra stóð. Þær umleitanir Bills þóttu fremur óheppilegar innan fyrirtækisins.
Talsmaður Gates neitar ásökunum í frétt CNN og segir það miður að ósönnum sögum sem þessum sé dreift. „Sögurnar verða æ sérkennilegri og það er sárt að sjá einstaklinga með litla sem enga þekkingu á efninu titlaða heimildarmenn,“ er haft eftir talsmanninum.