Eiginkona sendiherra Belgíu í Suður-Kóreu, Xiang Xueqiu hefur krafist friðhelgi sendierindreka til þess að komast hjá því að vera ákærð fyrir líkamsárás, samkvæmt breska ríkisútvarpinu. Í síðasta mánuði var upptöku úr öryggismyndavél lekið sem sýndi Xueqiu veitast að starfsmönnum fatarbúðar.
Þegar Xueqiu yfirgaf fatarbúðina vildi einn af starfmönnum hennar ganga úr skugga um að hún hafi ekki stolið fötunum sem hún var í og elti hana úr búðinni. Reiddist hún hegðun starfsmannsins og elti hann aftur í búðina þar sem hún hóf að þræta við hann. Þegar annar starfsmaður reyndi að grípa inn í deiluna sýnir upptakan konu sendiherrans löðrunga hann og ýta honum til.
Peter Lescouhier, sendiherra Belgíu í Suður-Kóreu, hefur beðist afsökunar á hegðun eiginkonu sinnar. Lögreglan yfirheyrði Xueqiu 6. maí síðastliðinn en hún hafði áður dvalið á sjúkrahúsi eftir að hafa fengið heilablóðfall, að sögn belgíska sendiráðsins.