Frakkar veita Súdan 186 milljarða lán

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, tekur á móti afrískum þjóðarleiðtogum í …
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, tekur á móti afrískum þjóðarleiðtogum í dag og á morgun. AFP

Frönsk stjórnvöld hafa ákveðið að veita Súdan 1,5 milljarða dala brúarlán, sem samsvarar um 186 milljörðum króna, til að aðstoða við að borga skuld við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Frá þessu greindi fjármálaráðherra Frakklands, Bruno Le Maire, í dag.

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, tók á móti afrískum þjóðarleiðtogum, sendifulltrúum og fjárfestar á leiðtogafundi í París í dag og gerir það einnig á morgun. Markmið fundanna er að aðstoða ríkisstjórn Súdan að innleiða lýðræðislegar umbreytingar eftir að ríkið losnaði undan einræðisstjórn Omar al-Bashir árið 2019.

Geti losnað við 60 milljarða dala skuld

Á fundinum í dag voru fjárfestingarmöguleikar í Súdan ræddir auk þess sem rætt var um skuldavanda landsins. Á morgun verður almennt farið yfir hvernig afrísk efnahagskerfi geta spornað gegn því 300 milljarða dala tapi, sem samsvarar 37 þúsund milljörðum króna, sem varð sökum Covid-19 faraldursins.

Vonar forsætisráðherra Súdan, Abdalla Hamdok, að landið geti losnaði við allt að 60 milljarða skuld, sem samsvarar 7.468 milljörðum króna, á þessu ári ef samningaviðræður við erlenda aðila ganga vel. Segir hann ráðstefnuna í París einnig gott tækifæri til að kynna fjárfestingarmöguleika í Súdan fyrir erlenda fjárfesta. Hann bætir þó við að ekki sé verið að leitast eftir styrkjum eða framlögum.

Enn margar hindranir

Ríkisstjórn Hamdok hefur unnið hart að því að endurbyggja efnahag Súdan eftir margra ára einangrun landsins undir stjórn Bashir en hann sat við völdin í þrjá áratugi. Það var ekki fyrr en í desember 2020 að Súdan var tekið af svörtum lista yfirvalda í Washington, sem opnaði á fjárfestinga möguleika að utan, en þrátt fyrir það ríkja enn margar hindranir sem Súdan þarf að glíma við.

Að sögn fulltrúa frönsku ríkisstjórnarinnar er vonast eftir því að leiðtogafundurinn sendi skilaboð til landa í Afríku um að hjálp muni berast þeim sem taka upp lýðræðislega stjórnunarhætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert