Linnulausar loftárásir á Gaza í nótt

Frá árásunum í nótt.
Frá árásunum í nótt. AFP

Ekkert lát er á loftárásum Ísraelshers á Gaza-svæðinu og eru yfir 200 látnir í átökum milli Ísraels og Palestínu sem staðið hafa yfir í viku. Ekkert er hlustað á beiðnir alþjóðasamfélagsins um að árásunum linni.

Að sögn ljósmyndara AFP-fréttastofunnar á vettvangi skaut Ísraelsher tugum eldflauga yfir Gaza-svæðið í nótt en svæðið er eitt það þéttbýlasta í heimi. Hamas-samtökin eru við stjórnvölinn á Gaza. Hundruð bygginga í Gaza-borg skemmdust og rafmagn fór af borginni. Ekki hefur verið tilkynnt um að fólk hafi látist í árásunum í nótt en í gær drap Ísraelsher 42 á Gaza-svæðinu.

AFP

Mad Abed Rabbo sem býr í vesturhluta Gaza segir að nóttin hafi verið skelfileg og aldrei áður hafi umfang árása Ísraelshers verið svo mikið og þessar síðustu klukkustundir. 

Árásir Ísraelsmanna beindust meðal annars að neðanjarðargangakerfi Hamas. 54 orrustuþotur tóku þátt í aðgerðunum og skutu þær látlaust á svæði þar sem Ísraelsher segir að neðanjarðargöngin liggi. Um er að ræða 15 km löng göng, samkvæmt því sem herinn segir, og liggja þau meðal annars um íbúabyggð. 

AFP

197 drepnir á Gaza og 10 í Ísrael

Alls hafa 197 Palestínumenn verið drepnir á Gaza síðustu vikuna. Þar af að minnsta kosti 58 börn. Yfir 1.200 hafa látist frá því herinn hóf árásir á Gaza 10. maí í kjölfar eldflaugaárása þaðan á Ísrael. Í Ísrael hafa tíu látist í árásum Palestínumanna, þar af eitt barn. 294 hafa særst í þessum árásum. 

Samkvæmt upplýsingum frá Ísraelsher hefur um 3.100 eldflaugum verið skotið á Ísrael frá Gaza á einni viku og hafa þær aldrei verið fleiri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka