Skólum verður lokað í Singapúr á miðvikudag þar sem nýtt afbrigði, sem fyrst greindist á Indlandi, er að greinast meðal margra skólabarna í borgríkinu.
Yfirvöld í Singapúr hafa ákveðið að herða sóttvarnareglur vegna fjölgunar smita eftir að hafa verið nánast veirulaust svæði í einhverja mánuði.
Grunnskólar sem og framhaldsskólar munu því hefja fjarkennslu að nýju og verður því þannig farið til loka skólaársins, 28. maí.
Tilkynnt var um breytingarnar eftir að 38 ný smit voru staðfest innanlands þar í gær og hafa þau ekki verið jafn mörg í átta mánuði. Í einhverjum tilvikum eru börn smituð en hópsmit kom upp í menntamiðstöð í borginni. Í dag var síðan tilkynnt um 21 nýtt smit til viðbótar.
Heilbrigðisráðherra Singapúr, Ong Ye Kung, vísar í samtal sem hann átti við Kenneth Mak sóttvarnalækni, þegar hann tilkynnti um breytingarnar, um að B.1.617-afbrigðið virðist hafa meiri áhrif á börn en mörg fyrri afbrigði Covid-19. Að stökkbreyttu afbrigðin séu bráðsmitandi og um leið smitist börn oftar af þeim. Ekkert þeirra barna sem er smitað í Singapúr hefur veikst alvarlega. Chan Chun Sing menntamálaráðherra segir að unnið sé að áætlun um að bólusetja skólabörn yngri en 16 ára.
Yfirvöld í Taívan eru að fara sömu leið í höfuðborginni Taipei og nágrenni en þar hefur nýjum smitum fjölgað verulega frá því sem var. Alls var tilkynnt um 333 ný smit þar í dag og hafa því allt frá upphafi Covid-faraldursins um tvö þúsund greinst með kórónuveiruna þar.
Í Singapúr mega nú aðeins tveir koma saman og bannað að borða innanhúss á veitingastöðum. Jafnframt hefur líkamsræktarstöðvum verið lokað.