Lögreglan í Delhi hefur handtekið þrjá einstaklinga fyrir að selja slökkvitæki sem þeir dulbjuggu sem súrefniskúta. Einstaklingarnir játuðu við yfirheyrslu lögreglunnar að þeir hefðu selt fjölda kúta til ættingja þeirra sem smitast hefðu af veirunni, og rukkað allt að 13.000 rúpíur fyrir hvern kút.
Þetta hermir frétt Times of India. Verðið jafngildir tæplega 22 þúsund íslenskum krónum.
Fyrir heimsfaraldurinn störfuðu einstaklingarnir við að safna tómum slökkvitækjum og annaðhvort endurfylla tækin fyrir slökkvistarf eða selja þau í brotajárn. Núverandi súrefnisskortur á Indlandi hvatti einstaklingana til þess að mála slökkvitækin svört og breyta stútnum á tækjunum í þeim tilgangi að koma gervikútunum í umferð.
„Þessir menn ættu að vera ákærðir fyrir manndráp,“ er haft eftir sjálfboðaliðanum Mukesh Khanna en kvörtun hans til lögreglu kom upp um svindl einstaklinganna.
„Þeir voru að leika sér með líf.“
Khanna starfar við samtök sem bjóða sjúklingum gjaldfrjálsa súrefniskúta og kvartaði hann til lögreglu um fyrirtæki sem var að ofrukka fyrir súrefniskúta.
Alvarlegur súrefnisskortur er á Indlandi en landið er í miðri seinni bylgju kórónaveirunnar. Þetta hefur leitt til þess að svindlum tengdum faraldrinum hefur fjölgað í landinu. Svindlarar eru meðal annars ásakaðir um að selja gerviútgáfur af lyfjum gegn Covid-19 og stela notuðum líkklæðum og selja sem ný.