Tígrisdýrið India sem saknað hefur verið í viku eftir að það sást á reiki í Houston er nú fundið. India var komið til lögreglunnar í Houston á laugardaginn og var í framhaldinu sett á verndarsvæði daginn eftir. Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu.
Tígrisdýrið sást á almannafæri þann 9. maí og myndskeiðum af því var dreift á samfélagsmiðlum. Þegar lögregluna bar að garði sást maður setja tígrisdýrið í jeppa og keyra af brott. Lögreglan reyndi að veita manninum eftirför en missti sjónar af honum.
Meintur eigandi tígrisdýrsins, Hugo Cuevas, var handtekinn nokkrum dögum seinna fyrir að reyna að komast undan handtöku. Cuevas var áður ákærður fyrir morð og gekk laus gegn tryggingu. Lögmaður Cuevas hefur lýst því yfir að Cuevas ætti ekki dýrið en játaði að hann sæi oft um umönnun þess. Það var eiginkona Cuevas sem kom tígrisdýrinu til lögreglu á laugardaginn.