Þungunarrof enn og aftur fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna

Hæstiréttur Bandaríkjanna
Hæstiréttur Bandaríkjanna AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna samþykkti á mánudag að taka fyrir mál um bann við þungunarrofi eftir 15. viku meðgöngu. Málið gæti orðið sögulegt og snúið við fordæmi Roe v. Wade, málsins sem bannaði ríkjum að takmarka rétt kvenna til þungunarrofs fyrir tiltekið tímamark.

Í flestum ríkjum er nú miðað við 22. viku, eins og fram kemur í umfjöllun CNBC.

Málið varðar lög frá Missisippi-ríki en lægri dómstig hafa dæmt ákvæðin ólögmæt með vísan til fyrri fordæma Hæstaréttar. Ef rétturinn myndi fallast á lögmæti lagasetningarinnar gætu önnur ríki fylgt í fótspor Missisippi með eigin löggjöf um efnið og mögulega gengið enn lengra.

Íhaldsarmur bandarískra stjórnmála hefur lengi vonast til þess að rétturinn snúi fordæmi Roe v. Wade. Fjöldi mála hefur farið fyrir réttinn sem og hafa sumir dómar takmarkað rétt kvenna til þungunarrofs.

Eftir fráfall hins frjálslynda dómara Ruth Bader Ginsburg á síðasta ári og í ljósi þess að Donald Trump tilnefndi þrjá nýja, íhaldsama, dómara í sinni forsetatíð gæti réttur þeirra takmarkast enn frekar með þessu máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert