Gagnrýna BBC vegna viðtals við Díönu

Vilhjálmur og Harry Bretaprinsar í jarðarför afa síns.
Vilhjálmur og Harry Bretaprinsar í jarðarför afa síns. AFP

Vilhjálmur og Harry Bretaprinsar hafa gagnrýnt BBC og fréttamanninn Martin Bashir harðlega vegna þess að Bashir „beitti svikum“ til að fá að taka frægt sjónvarpsviðtal við Díönu prinsessu, móður þeirra sálugu. Í viðtalinu sagði hún frá vandamálunum í hjónabandi hennar og Karls Bretaprins.

Díana prinsessa árið 1992.
Díana prinsessa árið 1992. AFP

Gagnrýni prinsanna kom fram nokkrum klukkustundum eftir að niðurstöður sjálfstæðrar rannsóknar voru birtar þar sem kom fram að Bashir hafði notað fölsuð skjöl til að fá að setjast niður með Díönu árið 1995. Einnig kom þar fram að stjórnendur BBC hefðu ekki kannað nægilega vel hvernig hann varð sér úti um viðtalið.

Martin Bashir árið 2007.
Martin Bashir árið 2007. AFP

Vilhjálmur sagði að það hvernig svikum var beitt til að fá að taka viðtalið hefði „haft töluverð áhrif“ á það sem móðir hans sagði í því og að þetta hefði „átt stóran þátt“ í endalokum sambands foreldra hans.

Hann sagði að mistök stjórnenda BBC hefðu átt sinn þátt í „ótta hennar, ofsóknaræði og einangrun“ síðustu æviár hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert